Handbolti

Íslendingar með Hollendingunum hans Erlings í riðli á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fyrsti leikur Íslands á EM 2022 verður gegn Portúgal 13. janúar.
Fyrsti leikur Íslands á EM 2022 verður gegn Portúgal 13. janúar. epa/Khaled Elfiqi

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Hollandi á EM 2022. Evrópumótið fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu 13.-30. janúar á næsta ári.

Ísland var í riðli með Portúgal á síðasta stórmóti, HM í Egyptalandi, og mætti portúgalska liðinu einnig á EM 2020. Íslendingar og Ungverjar hafa svo marga hildina háð á handboltavellinum.

Íslendingar og Hollendingar hafa ekki áður verið saman í riðli á stórmóti. Þjálfari hollenska liðsins er Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson. Hann þjálfar karlalið ÍBV og var um tíma í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins.

Erlingur Richardsson hefur náð góðum árangri með hollenska landsliðið.epa/MACIEJ KULCZYNSKI

B-riðilinn, sem Ísland er í, verður leikinn í nýrri keppnishöll í Búdapest í Ungverjalandi. Ísland mætir Portúgal 13. janúar, Hollandi 16. janúar og Ungverjalandi 18. janúar. Íslendingar mættu einnig Portúgölum í fyrsta leik sínum á HM 2021.

Þýskaland, sem Alfreð Gíslason þjálfar, er í D-riðli með Austurríki, Hvíta-Rússlandi og Póllandi.

Tvö efstu liðin í hverjum riðli fara í milliriðla. Þeir eru tveir og verða skipaðir sex liðum hvor. Tvö efstu liðin í hvorum milliriðli komast svo í undanúrslit mótsins.

Ef Ísland kemst í milliriðil hitta strákarnir okkar þar fyrir liðin úr A- og C-riðlum. Slóvenía, Danmörk, Norður-Makedónía og Svartfjallaland eru í A-riðli og Króatía, Serbía, Frakkland og Úkraína í C-riðli.

Riðlarnir á EM 2022

A-riðill (Szeged, Ungverjalandi)

 • Slóvenía
 • Danmörk
 • Norður-Makedónía
 • Svartfjallaland

B-riðill (Búdapest, Ungverjalandi)

 • Portúgal
 • Ungverjaland
 • Ísland
 • Holland

C-riðill (Debrechen, Ungverjalandi)

 • Króatía
 • Serbía
 • Frakkland
 • Úkraína

D-riðill (Bratislava, Slóvakíu)

 • Þýskaland
 • Austurríki
 • Hvíta-Rússland
 • Pólland

E-riðill (Bratislava, Slóvakíu)

 • Spánn
 • Svíþjóð
 • Tékkland
 • Bosnía

F-riðill (Kosice, Slóvakíu)

 • Noregur
 • Rússland
 • Slóvakía
 • LitáenFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.