Viðskipti innlent

Afkoma þriggja banka 24 milljörðum betri en á sama tíma í fyrra

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans.
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka, Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans. Vísir

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa nú allir skilað uppgjöri fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Samanlagður hagnaður þeirra er 17,2 milljarðar króna samanborið við sjö milljarða tap á sama tíma í fyrra.  Landsbankinn skilar mestum hagnaði eða 7,6 milljörðum, Arion banki 6 milljörðum og Íslandsbanki 3,6 milljörðum króna. 

Landsbankinn skilaði uppgjöri sínu í dag. Þar kemur fram að hagnaður á fyrstu þremur mánuðum ársins  nemi 7,6 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 3,6 milljarða króna tap á sama tíma fyrir ári.

Þjónustutekjur hafi aukist á fyrstu þremur mánuðum ársins vegna meiri umsvifa en vaxtamunur minnkað. Þá hafi hagkvæmni í rekstri haldið áfram að aukast. 

Spár um efnahagsbata og ítarlegt mat á útlánasafninu valdi því að virðisbreytingar útlána séu jákvæðar um 2,5 milljarða króna. 

Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er um 38%.  

Jákvæðar virðisbreytingar á fjórðungnum megi rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og horfur séu á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021.

Heildareignir Landsbankans jukust um 36,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.601 millj­arði króna í lok fyrsta ársfjórðungs.

 Á aðalfundi bankans, sem haldinn var í mars  var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2020 að fjárhæð 4.489 milljónir króna og hefur arðurinn verið greiddur út. 

Bankinn er í 98% eigu ríkisins og starfsmenn eiga um 2% hlut.

Íslandsbanki skilaði uppgjöri fyrir ársfjórðunginn í gær.  Íslandsbanki hagnaðist á tímabilinu um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2021. Á  sama fjórðungi árið 2020 tapaði bankinn 1,4 milljarði og arðsemi eigin fjár var neikvæð um þrjú prósent.

Birna Einarsdóttir sagði við það tækifæri að stefnt sé að  skráningu hlutabréfa bankans á skipulegan verðbréfamarkað, að undangengnu útboði í júní. 

Arion banki hagnaðist um rúma sex milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins 2021. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 12,5 prósent. Það er mun betri afkoma borið saman við fyrsta ársfjórðung 2020, þegar bankinn tapaði rúmum tveimur milljörðum og afkoma eigin fjár var neikvæð um 4,6 prósent.

Eiginfjárhlutfall var 26,9 prósent í lok mars. Arðgreiðsla og endurkaup á hlutabréfum bankans námu 14,8 milljörðum króna.

Alls högnuðust bankarnir þrír því um 17,2 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við sjö milljarða tap í fyrra. Heildarafkoma bankanna er því 24 milljörðum betri nú en í fyrra. 


Tengdar fréttir

Arion hagnaðist um rúma sex milljarða

Arion banki hagnaði um rúma sex milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins 2021. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 12,5 prósent. Það er mun betri afkoma borið saman við fyrsta ársfjórðung 2020, þega bankinn tapaði rúmum tveimur milljörðum og afkoma eigin fjár var neikvæð um 4,6 prósent.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×