Körfubolti

NBA dagsins: Engin draumaendurkoma hjá Davis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Davis valdar Kristaps Porzingis sem þurfti að fara meiddur af velli í leiknum í nótt.
Anthony Davis valdar Kristaps Porzingis sem þurfti að fara meiddur af velli í leiknum í nótt. ap/Tony Gutierrez

Eftir næstum því tíu vikna fjarveru sneri Anthony Davis aftur í lið Los Angeles Lakers í nótt. Hann átti þó enga draumaendurkomu.

Davis hefur glímt við meiðsli í kálfa og hæl og missti af þrjátíu leikjum vegna þeirra. LeBron James hefur einnig verið frá vegna meiðsla og án sinna bestu manna hefur meisturunum fatast flugið. Lakers er í 5. sæti Vesturdeildarinnar.

Davis klikkaði á fyrstu fimm skotum sínum og hitti aðeins úr tveimur af tíu skotum sínum í leiknum í nótt. Hann spilaði í sautján mínútur, skoraði fjögur stig og tók fjögur fráköst.

Bestu fréttirnar fyrir stuðningsmenn Lakers voru samt þær að Davis sagðist ekki finna fyrir meiðslunum og virtist sleppa heill frá leiknum.

Kentavious Caldwell-Pope var stigahæstur í liði Lakers með 29 stig. Dennis Schröder skoraði 25 stig og gaf þrettán stoðsendingar.

Luka Doncic skoraði þrjátíu stig fyrir Dallas sem missti Kristaps Porzingis í meiðsli enn eina ferðina. Hann skoraði nítján stig áður en hann þurfti að fara af velli. Porzingis hefur þegar misst af nítján leikjum á tímabilinu.

Dallas er í 7. sæti Vesturdeildarinnar og gerir atlögu að því að komast beint inn í úrslitakeppnina. Sex efstu liðin í hvorri deild komast þangað en liðin í 7.-10. sæti fara í umspil.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Dallas og Lakers, Milwaukee Bucks og Philadelphia 76ers og Boston Celtics og Phoenix Suns auk flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 23. apríl

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×