Atvinnulíf

Ríkið innleiðir nýja stjórnendastefnu: Vilja hæfasta fólkið

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sérfræðingur Kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sérfræðingur Kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Vísir/Vilhelm

„Stjórnendur ríkisins eiga að búa yfir hæfni og þekkingu til að geta brugðist við sífellt flóknara starfsumhverfi og vinna að breytingum í samfélaginu. Sú hæfni sem lögð er til grundvallar í stefnunni eru leiðtogahæfileikar, áhersla á árangursmiðaða stjórnun, samskiptahæfni og heilindi sem er svo útfærð nánar í stefnunni,“ segir Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um nýja stjórnendastefnu sem ríkið vinnur nú að því að innleiða.

„Lykillinn að því að vel takist til við að innleiða svona stefnu er að þeir sem skipuleggja verkefnið fái sem flesta að borðinu og setji sig í spor þeirra sem stefnan á að þjóna,“ segir Guðrún.

Skapa umhverfi fyrir öfluga stjórnendur

Með nýrri stefnu er ekki síst verið að skapa eftirsótt umhverfi fyrir öfluga stjórnendur.

„Forstöðumenn ríkisstofnana stýra þjónustu við samfélagið og því mjög mikilvægt að í þann hóp veljist öflugir stjórnendur enda miðar öll starfsemi ríkisins að því að bæta lífskjör í landinu,“ segir Guðrún og bætir við: 

Við viljum skapa umhverfi þar sem okkar hæfasta fólk sækist eftir störfum sem stjórnendur hjá ríkinu.“

Guðrún segir nokkuð langt síðan byrjað var að tala um mikilvægi þess að gerð væri stjórnendastefna fyrir stjórnendur hjá ríkinu. Sú umræða hefði verið lengi, bæði innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hjá Félagi forstöðumanna ríkisins.

„Það var svo í lok árs 2016 sem sett var í lög að ráðherra skuli setja heildstæða stjórnendastefnu. Undirbúningur og mótun stefnunnar hófst stuttu síðar og var gerð í samráði við forstöðumenn og stofnanir, auk þess sem hún var sett í samráðsgátt stjórnvalda,“ segir Guðrún en stefnan var síðan tilbúin og kynnt af ráðherra um mitt árið 2019.

Guðrún segir margt vinnast með því að setja stjórnun formlega á dagskrá sem verkefni að vinna að.

„Auðvitað eru stjórnendastörf hjá ríkinu ólík en með gerð stefnunnar er verið að hnykkja á mikilvægi stjórnunar. Lengi tíðkaðist að velja besta sérfræðinginn í stjórnendastarfið en nú eru aðrir tímar. Krafan um leiðtogahæfileika og forystu er alltaf að verða sterkari. Nauðsynlegt er að stjórnendur stígi inn í hlutverk sitt og leiði sitt fólk áfram til móts við nýja tíma og þær áskoranir sem verða á veginum og velji með sér rétta fólkið til að ná árangri,“ segir Guðrún.

Guðrún Jóhanna leggur áherslu á að margir komi að borði við mótun nýrrar stjórnendastefnu, það vissulega leiði til þess að verkefnið taki lengri tíma en fyrir vikið verður innleiðingin sjálf einfaldari í framkvæmd.Vísir/Vilhelm

Góðu ráðin

Að sögn Guðrúnar er hægt að fara ótal leiðir í mótun nýrrar stjórnunarstefnu en í upphafi var lagt upp með að hún yrði skýr og einföld. 

Eins að aðgerðaráætlun myndi fylgja með stefnunni og að sú aðgerðaráætlun yrði endurnýjuð á tveggja til þriggja ára fresti.

„Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnendur þekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirra því þannig er hægt að skipuleggja betur starfsþróun og stuðning við stjórnendur og byggja upp betra starfsumhverfi sem er eftirsóknarvert að starfa í,“ segir Guðrún.

Í upphafi verkefnis var byrjað á því að móta kjörmynd stjórnenda, þar sem fram komu hæfniskröfur og hvernig sú hæfni myndi nýtast við mat á frammistöðu og ákvörðun um frekari starfsþróun.

Þá segir Guðrún aðgerðaráætlunina gera ráð fyrir miklu samráði.

Allar aðgerðir eru unnar í hópum þar sem forstöðumenn, mannauðsfólk stofnana og starfsfólk ráðuneyta vinna saman að því að móta aðgerðir með það að markmiði að byggja upp eftirsóknarvert starfsumhverfi. 

Þessi vinna hefur verið mjög skemmtileg og gefandi enda tel ég að í svona verkefni sé mikilvægt að sem flestir komi að mótuninni,“ 

segir Guðrún.

Að innleiða stefnu þar sem margir koma að borði og samráð er mikið, tekur vissulega lengri tíma en ella væri að sögn Guðrúnar. Hún mælir þó með þessari leið því hún tryggir að innleiðingin sjálf gengur mun betur í kjölfarið.

Þar þurfi líka allir að vera meðvitaðir um hver markmiðin eru og hvaða spurningum hefur verið velt upp.

„Hvernig tryggjum við góða stjórnun hjá ríkinu? Hvernig fylgjumst við með? Hvað er gott starfsumhverfi? Allt eru þetta spurningar sem þarf að ræða og tryggja að stjórnendastefnan snúist um.“

Guðrún segir markmiðið vera að klára allar aðgerðir fyrir lok árs. Covid hafi þó hægt aðeins á verkefninu og svona verkefni sé nokkuð erfitt að vinna eingöngu á netinu því fólk þurfi helst að hittast og rökræða. Einkum þar sem hóparnir eru blandaðir og margir sem koma að borði, eru að vinna saman í fyrsta skiptið.

Þá segir Guðrún tengslamyndunina sem skapast í verkefni sem þessu, mjög dýrmæta.

„Það er gaman að segja frá því að fólk sem tók þátt í fyrstu aðgerðarhópunum áður en veiran skall á hafði á orði hversu mikilvægt það væri að koma inn í ráðuneytið á vinnufundi og vinna þetta saman. Það færir fólk nær hvert öðru og eflir samskiptin en við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu vinnum þvert á allar stofnanir ríkisins í mannauðsmálum,“ segir Guðrún.


Tengdar fréttir

Stjórnun 2021: „Þetta reddast“ hefur fengið nýja merkingu

Í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Atvinnulífið á Vísi má sjá að 75 prósent þeirra sem starfa í fjarvinnu myndu kjósa að vinna heiman frá sér í tvo til þrjá daga í viku. Ýmsir spá því að fjarvinna í bland við vinnu á staðnum verði framtíðarfyrirkomulag sem mörg fyrirtæki munu taka upp í kjölfar Covid. En að hverju þurfa stjórnendur að huga að ef þetta verður þróunin?

Allt breytt eftir Covid og „framtíð“ vinnustaða í raun komin

„Stærstu mistökin myndi ég telja að vera að bíða eftir að allt verði eins og það fyrir Covid. Heimurinn er einfaldlega breyttur. Sú framtíð sem rætt hefur verið um hvað varðar vinnu, vinnustaði og vinnuafl er hreinlega komin,“ segir Herdís Pála Pálsdóttir mannauðstjóri Deloitte.

Ungt fólk sækir í störf hjá fyrirtækjum sem hlúa að jafnrétti og sjálfbærni

Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður segir reynslu fyrirtækisins vera að ungt fólk sækist í störf hjá fyrirtækjum sem vinna að því að vera fyrirmyndir í jafnréttis- og sjálfbærnimálum. Bjarney segist þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem ekki huga að þessum málum muni tilheyra fortíðinni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.