Viðskipti innlent

„Það er ekki nóg að vera frændi ein­hvers eða hafa verið með honum í grunn­skóla“

Eiður Þór Árnason skrifar
Andrés Jónsson, almannatengill og ráðningarráðgjafi, leggur mikið upp úr því að fólk sé sýnilegt og kynni færni sína með öllum tiltækum leiðum. 
Andrés Jónsson, almannatengill og ráðningarráðgjafi, leggur mikið upp úr því að fólk sé sýnilegt og kynni færni sína með öllum tiltækum leiðum.  Vísir/vilhelm

„Oftar er meira svigrúm til bæta fjárhagslega svigrúmið þitt með því að auka tekjurnar til skamms og meðallangs tíma. Ég vil ekki gera lítið úr því að þurfa að spara og ég er að gera það sjálfur en það er ekki síður mikilvægt að hugsa um það hvernig maður getur aukið tekjur sínar,“ segir Andrés Jónsson, almannatengill og ráðningarráðgjafi hjá Góðum samskiptum.

Andrés var viðmælandi Gunnars Dofra Ólafssonar í hlaðvarpinu Leitinni að peningunum en þar ræddi hann meðal annars hvað fólk getur gert til að styrkja sig á vinnumarkaði, aukið tekjur sínar og náð meiri árangri.

„Þar er ótrúlega margt sem fólk áttar sig held ég ekki á, fólk er að sætta sig við of lág laun, er ekki að biðja um launahækkanir eða átta sig á því hvernig þau geta réttlætt launahækkanir.“

Mikilvægt að sýna færni sýna

Andrés leggur mikið upp úr því að fólk rækti stórt og víðfeðmt tengslanet en segir það ekki nóg ef fólk vill reyna að tryggja sér spennandi tækifæri á vinnumarkaði. Hann segir mestu máli skipta að aðrir fái möguleika á því að sjá færni þína og fólk sé almennt sýnilegt þar sem margir tengi sýnileika við hæfni.

„Þegar ákvarðanir eru teknar um ráðningar eða fá fólk í verkefni skiptir máli að vera áberandi á sínu sviði og vera ofarlega í huga fólks þegar kemur að því að finna fólk í hin ýmsu störf og verkefni.“

„Margir líta á það sem öryggi að fólk viti ekki hver þú ert og fólkið sé ekki með nefið í manns koppi og svona en eins og fjölmiðlunin er og samfélagsmiðlarnir er þá er enginn öruggur fyrir því að verða einhvern tímann gagnrýndur eða útmálaður.“

Hann bætir við að það sé mikilvægt að fólk hafi einhverja mynd af þér og taki þar með frekar stöðu með þér ef nafn þitt kemst í umræðuna.

„Það er eiginlega meira öryggi í því að hafa einhvers konar ásýnd og hugsa einhvern veginn um ásýnd sína en að hafa enga ásýnd.“

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn undanfarið ár. Almennt atvinnuleysi mældist 11,4% í febrúar en var 11,6% í janúar.Vísir/Vilhelm

Mikilvægt að skilja hvað heldur fyrir fólki vöku

,,Ég hef haldið því fram að sýnileikinn leiði til þess að við getum verðlagt hæfni okkar á hærra verði. Mín kenning er að með sýnileika fáum við tækifæri sem aftur leiða til þess að við verðum hæfari með fleiri tækifærum. Fær manneskja sem enginn tekur eftir getur þannig dregist aftur úr af því hún fékk færri tækifæri,“ segir Andrés.

Einnig skipti máli að reyna að skilja störf annarra og hvernig þú eða hærra settir séu mældir af sínum yfirmönnum.

„Það er mikilvægt að fatta hvernig forstjórinn verður ánægður, hvað hann er með efst í huga. Það er alltaf mikilvægt að hugsa um hvað það er sem heldur þeim sem ég er að reyna að ná til vakandi á nóttunni. Það er yfirleitt bara einn eða tveir hlutir. Ef þú kemur í atvinnuviðtal og nefnir þennan hlut og leggur til lausn eða sýnir að þú hafi hugsað út í það þá ertu ótrúlega gagnlegur og strax orðinn verðmætari.“

Lykilatriði að leggja til lausnir að vandamálum

Með öðrum orðum eru allir sem eru í ráðningarhugleiðingum að reyna að leysa eitthvað vandamál. Jafnvel þó ekki sé verið að auglýsa starf í tilteknum geira sé hægt að komast inn með þetta hugarfar að vopni.

„Ef þú sérð að það er vandamál þarna og upplifir að þú sért með færni sem geti hjálpað með þetta vandamál þá getur þú fundið eitthvað verkefni eða einhvern veginn tengst inn í þetta og verið kominn með starf.“

Andrés segir skipta máli að reyna að skilja störf annarra og hvernig þú eða yfirmenn eru mældir.Aðsend

Andrés segir að þetta eigi ekki síður við inn á vinnustaðnum, gott sé að átta sig á því hvað skiptir máli í augum yfirmanna ef þú vilt sækjast eftir nýjum tækifærum innanhúss.

„Þetta snýst ekki bara um það hvenær þú mætir og hvenær þú ferð, heldur að þú sért með allt þitt á tæru þegar mikið gengur á og fattar hvernig þú átt að fúnkera svo allir aðrir geti unnið sitt. Það vill enginn vera að míkrómanagera þig.“

Markmiðið að eignast talsmann í herberginu 

Að sögn Andrésar fylgir því alltaf ákveðin áhætta að ráða fólk og þess vegna séu tengsl yfirleitt algengasta leiðin til að fá starf.

„Gróflega 30 prósent starfa eru auglýst, 50 prósent fást örugglega í gegnum tengsl og 20 prósent gegnum aðrar leiðir. Tengsl eru trygging og ástæðan fyrir því að fólk er að kaupa sér tryggingu er að það eru allir að reyna að ráða þann besta og með sem minnstum líkum á því að ráðningin klúðrist.“

Það þýði þó ekki að yfirmenn vilji ráða bróður sinn eða mág heldur komi þetta aftur að því að fólk sé sýnilegt, með vítt tengslanet og það orð á sér að það hafi góða færni á ákveðnu sviði.

Andrés segir að tækifæri komi í gegnum fólk og að það sé gjarnan mjög lítill hópur sem geti útvegað stærstu tækifærin í hverjum geira.

„Þú þarft einhvern veginn að láta þá sjá hvað þú kannt, það þarf að vera talsmaður þinn og það er ekki nóg að vera frændi einhvers eða hafa verið með honum í grunnskóla.“

Hann segir það sama eiga við þegar kemur að meðmælum því fólk sé ekki síður að leggja sig sjálft í sölurnar þegar það mælir með öðrum.

Hlaðvarpið Leitin að peningunum er framleitt í samstarfi við Umboðsmann skuldara með stuðningi frá félagsmálaráðuneytinu.


Tengdar fréttir

Óskar eftir fólki til að út­búa skemmti­­legan þjóð­hag­fræði­tölvu­leik

Svanhildur Hólm Valsdóttir kallar eftir því að frumkvöðlar útbúi sérstakan efnahagshermi svo stjórnvöld og almenningur geti betur áttað sig á áhrifum skattabreytinga. Hún hætti í fyrra sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra og tók við sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Hún telur að það hafi verið til bóta að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra og segir að starfið sé á við tvær háskólagráður.

Aldrei verið auð­veldara að kaupa hús­næði

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, segir að það hafi aldrei verið auðveldara að kaupa íbúðarhúsnæði á Íslandi. Hann hefur lengi fylgst með þróun fasteigna- og leigumarkaðsins hér á landi og segir að á síðustu tuttugu árum hafi alla jafna verið hagstæðara að kaupa en að leigja.

Fékk nóg af fá­tæktar­gildrunni og stofnaði stærsta um­ræðu­hóp um fjár­mál á Ís­landi

Sædís Anna Jónsdóttir var rétt rúmlega tvítug þegar hún var komin í miklar fjárhagslegar ógöngur og kveið fyrir framtíðinni. Skuldirnar fóru stigvaxandi, reikningarnir söfnuðust upp og fyrsta barnið var á leiðinni. Henni hefur síðan tekist að gjörbreyta fjárhagsstöðu sinni með aga, hagsýni og samviskusemi og stofnaði í leiðinni einn stærsta umræðuvettvang um fjármál á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×