Körfubolti

Adomas Drungilas missir bara af leik kvöldsins: Hér má sjá atvikið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adomas Drungilas í leiknum umrædda á móti Haukum þar sem hann var rekinn út úr húsi.
Adomas Drungilas í leiknum umrædda á móti Haukum þar sem hann var rekinn út úr húsi. Vísir/Hulda Margrét

Þórsarinn Adomas Drungilas hefur verið dæmdur í eins leiks bann eftir að hafa verið rekinn út úr húsi á dögunum.

Þórsarar verða því án hans í kvöld þegar þeir koma í heimsókn til Grindavíkur í fjórtándu umferð Domino´s deildar karla.

Drungilas var rekinn út úr húsi fyrir að slá til Haukamannsins Breka Gylfasonar í leik Hauka og Þórs í Ólafssal á Ásvöllum en atvikið gerðist beint fyrir framan Davíð Tómas Tómasson dómara.

Aga- og úrskurðarnefnd hefur komist að niðurstöðu í máli Drungilas og lætur sér nægja að dæma hann bara í eins leiks bann.

Hér fyrir neðan má sjá atvikið þegar Drungilas slær til Breka en atvikið gerðist langt út á velli.

Klippa: Drungilas rekinn út úr húsi

Drungilas nær því stórleiknum á móti Stjörnunni í næstu viku en þar mætast tvö af þremur efstu liðum deildarinnar.

Adomas Drungilas hefur verið mjög öflugur með Þórsliðinu á leiktíðinni en hann er með 16,0 stig, 10,4 fráköst og 4,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið Þórsarar sakna hans í kvöld.

Í leiknum á móti Haukum þá var hann rekinn út í stöðunni 74-69 fyrir Þór en Þórsarar unnu síðustu rúmu fimmtán mínúturnar án hans með ellefu stigum, 42-31.

Bein útsending frá leik Grindavíkur og Þórs Þorl. hefst klukkan 18.05 á Stöð 2 Sport en í kvöld verður einnig sýndur leikur KR og Vals í beinni útsendingu á sömu stöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×