Viðskipti innlent

Hafa sýnt vöru­la­ger Geysis á­huga í kjölfar gjald­þrotsins

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá verslun Geysis á Skólavörðustíg árið 2012.
Frá verslun Geysis á Skólavörðustíg árið 2012. Geysir

Rekstrarfélög Geysis og tengdra verslana hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta en verslununum var lokað í byrjun febrúar og öllu starfsfólki sagt upp.

Annars vegar er um að ræða félagið Geysir shops ehf., sem rak verslun Geysis í Haukadal og hins vegar Arctic shopping ehf. Hið síðarnefnda rak verslanir Geysis í Kringlunni, á Skólavörðustíg og Akureyri, Jólahúsið á Hafnarstræti, Fjallräven á Laugavegi og minjagripaverslanir undir merkjum Lundans og Thor í miðbæ Reykjavíkur.

Skiptastjórinn Torfi Ragnar Sigurðsson segir að Jóhann Guðlaugsson, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækjanna, hafi sjálfur óskað eftir því að þau yrðu tekin til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur Suðurlands samþykkti beiðnina þann 1. mars síðastliðinn og skipaði Torfa sem skiptastjóra. 

Töluverðar eignir til staðar

Torfi segir að helstu eignir í þrotabúum Geysis shops og Arctic shopping séu vörulager, innréttingar verslana og lausafé. Ekki liggur fyrir hve margir starfsmenn eiga launakröfur á hendur fyrirtækjunum en líkt og aðrir kröfuhafar hafa launþegar tvo mánuði til að lýsa kröfu í búin frá auglýsingu í Lögbirtingablaði en hún birtist í gær.

Bryn­dís­ Guðna­dótt­ir, for­stöðumaður kjara­mála­sviðs VR, sagði við mbl.is í febrúar að samkvæmt gögnum stéttarfélagsins hafi verslanir Geysis greitt öll útistandandi laun til félagsmanna VR.

Að sögn Torfa er nú unnið að því að losa vörulager verslananna sem sé töluverður.

„Menn eru áhugasamir um vörubirgðirnar og þær viðræður eru í gangi við áhugasama aðila,“ segir skiptastjórinn en bætir við að formlegar viðræður hafi ekki enn farið fram. Meðal annars sé um að ræða aðila sem starfi á smásölumarkaði.

„Þetta er svo nýtilskeð að menn eru bara að átta sig á stöðunni, ná utan um vörubirgðirnar og annað en sú vinna gengur bara vel. Það er að komast góð mynd á þetta.“

Stærðarinnar verslunarveldi riðaði til falls

Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á snemma árs 2020 voru verslanir Arctic Shopping þrettán talsins. Mörgum þeirra var lokað á síðasta ári þegar faraldurinn varð til þess að erlendir ferðamenn urðu sjaldgæf sjón í miðbæ Reykjavíkur. 

Farið var fram á gjaldþrotaskipti á Arctic shopping þann 29. janúar síðastliðinn en tveimur dögum seinna var búið að loka verslunum félagsins og segja upp starfsfólki. Starfsfólki í Haukadal var sagt upp síðar en óskað var eftir gjaldþrotaskiptum á Geysi shops, rekstarfélagi útibúsins í Haukadal, þann 22. febrúar síðastliðinn. 

Vísir fjallaði ítarlega um ris og fall verslunarveldisins í febrúar.


Tengdar fréttir

Andrúmsloftið þungt en engin dramatík

Stéttarfélagið VR er nú með launamál um fjörutíu félagsmanna, sem áður voru starfsmenn Geysis, til meðferðar. Forstöðumaður kjaramálasviðs VR segir framhaldið nú velta á því hvenær félagið verði úrskurðað gjaldþrota. Andrúmsloftið á starfsmannafundi á mánudag hafi verið þungt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×