Samningurinn nær einungis til hlutabréfa Arion sem skráð eru á Íslandi.Vísir/Vilhelm
Arion banki hefur undirritað nýjan samning við Íslandsbanka um að Íslandsbanki gegni hlutverki viðskiptavaka á hlutabréfum útgefnum af Arion banka sem skráð eru í viðskiptakerfi Nasdaq Iceland. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Mun þetta aðeins ná til þeirra hlutabréfa Arion banka sem eru skráð á Íslandi, en samkvæmt samningnum mun viðskiptavaki setja fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf Arion banka áður en markaður er opnaður alla viðskiptadaga. Tilboðin skulu sett fram í að lágmarki 250 þúsund hluti og endurnýjuð eins fljótt og unnt er, en þó ávallt innan 10 mínútna eftir að þeim er tekið að fullu.
Hámarksfjöldi hluta sem viðskiptavakar eru skuldbundnir til að kaupa eða selja á hverjum degi er 1.250.000 hlutir.
„Verðbil milli kaup- og sölutilboða sem sett eru fram í viðskiptavakt skal að hámarki nema 1,5% og frávik frá síðasta viðskiptaverði sama dags skal ekki vera meira en 3,0%. Ef verðbreyting á hlutabréfum Arion banka innan dags nær 10% er viðskiptavaka heimilt að tvöfalda hámarks verðbil milli kaup- og sölutilboða tímabundið þann daginn,“ segir í tilkynningu.
Arion banki hagnaðist um 12,5 milljarða króna á síðasta ári. Þá var afkoma bankans af áframhaldandi starfsemi 16,7 milljarðar króna á árinu. Arðsemi eiginfjár var 6,5 prósent.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.