Atvinnulíf

Vöktun bóluefnis og mikil fjölgun starfsfólks framundan

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gísli Herjólfsson.
Gísli Herjólfsson. Vísir/Vilhelm

„Hugmyndin að Controlant kviknaði í Háskóla Íslands sem hluti af meistaranámi okkar. Controlant varð til í H1N1 árið 2009, eða Svínaflensunni eins og hún er kölluð. Þá var okkar tækni notuð til þess að verja og stýra dreifingu og hýsingu á bóluefninu á Íslandi,“ segir Gísli Herjólfsson framkvæmdastjóri Controlant um upphafið en fyrirtækið var stofnað af fimm félögum, sem ýmist þekktust úr æsku eða kynntust í háskólanum.

Síðustu vikurnar hefur Controlant síðan ítrekað verið nefnt í fjölmiðlum því það sér um að vakta bóluefni fyrir Covid. Það er gert með hug- og vélbúnaði sem Controlant hefur þróað. Meðal þess sem vöktunarbúnaðurinn gerir er að mæla raka- og hitastig, ákvarða staðsetningu og senda frá sér upplýsingar sem hægt er að fylgj­ast með í rauntíma. 

Með þessu er betur hægt að gæði á viðkvæm­um vör­um, hvort sem er í flutningi og geymslu. „Við erum afskaplega stolt af okkar þætti í dreifingu á COVID-19 bóluefninu,” segir Gísli.

Fyrirtækið Controlant er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem stofnað var árið 2009. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 150 manns. Á þessu ári er ætlunin að fjölga starfsfólki í 200.

Mikilvægur hlekkur í heimsfaraldri

Að sögn Gísla er markmið starfsemi Controlant að tryggja öryggi sjúklinga og þjónustu við neytendur með því að minnka lyfja- og matarsóun í aðfangakeðjunni um 90%.

„Þegar svínaflensan kom var farið í að búa til bóluefni sem keypt voru til landsins og var fyrsta stóra verkefnið okkar í lyfjageiranum að vakta bóluefnin sem komu til landsins. Við náum samningi við sóttvarnalækni um vöktun á öllum bóluefnageymslum landsins. Það var fyrsta skrefið inn í lyfjageirann og við sáum strax að það væri mikil þörf fyrir tækni sem vaktar ástand og gæði lyfja,“ segir Gísli um upphafið.

Á þessum tíma sá Controlant um vöktun og dreifingu á öllu H1N1 bóluefni fyrir Ísland. Í dag hafa umsvifin aukist mikið.

Fyrir þrettán árum sáum við um vöktun og dreifingu á öllu H1N1 bóluefninu fyrir Ísland en núna í dag erum við að endurtaka leikinn með COVID-19 bóluefnið nema í þetta skiptið á heimsvísu.“ 

Flestir viðskiptavinir Controlant eru erlend fyrirtæki og því segir Gísli áhersluna mikla á starfsemina erlendis. Af um þrjú hundruð viðskiptavinum eru þó nokkur íslensk fyrirtæki sem starfa í lyfja- og matvælaiðnaði.

„Um 90% af viðskiptavinum okkar eru hluti af stærstu 25 lyfjafyrirtækjum heims ásamt alþjóðlegum flutningsfyrirtækjum.“

Gísli segir áætlanir ársins 2021 byggja á að Controlant muni vakta um milljón sendingar. Stór hluti þeirra er vöktun á bóluefni fyrir Covid-19.

„Við erum með samning við Pfizer um alþjóðadreifingu á bóluefni þeirra. Auk þessa þá vinnum með stórum lyfjakeðjum, flutningsaðilum og ríkisstjórnum að dreifingu bóluefnisins á alþjóðavísu. Þá sjáum við einnig um að vakta allt bóluefni sem kemur til Íslands,“ segir Gísli.

Mikil fjölgun starfsfólks er framundan hjá Controlant. Fyrirtækið starfar í fimm löndum en flestir starfsmenn eru á Íslandi.

Helstu áskoranir

Stofnendur Controlant eru Gísli Herjólfsson, Stefán Karlsson, Erlingur Brynjúlfsson, Atli Þór Hannesson og Trausti Þórmundsson. Í dag er eignarhaldið nokkuð dreift en eigendur sem bæst hafa við í hluthafahóp eru nokkrir áhættufjármagnssjóðir, fagfjárfestar og einstaklingar.

En hverjar hafa helstu áskoranirnar verið fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem á rétt rúmum áratug hefur náð að hasla sér völl á alþjóðavettvangi?

„Helstu áskoranirnar til að byrja með voru almenn þróun á vörunni okkar ásamt því að finna rétta markaðinn sem hentaði best fyrir hana. Svo eftir að hafa náð góðri fótfestu á innlendri grundu þá var það stór áskorun að koma vörunni okkar á framfæri á alþjóðavísu,“ segir Gísli og bætir við: „Við þurftum að hafa mikið fyrir því að komast inn fyrir dyrnar hjá mörgum af stærstu lyfjafyrirtækjum heims.”

Þá segir Gísli ýmsar áskoranir hafa komið upp í mannauðsmálum því starfsemin kalli á sérþekkingu starfsfólks sem erfitt hefur verið að sækja á Íslandi. 

Eins og áður segir, eru starfsmenn nú 150 talsins en Gísli segir áætlanir gera ráð fyrir að þeim muni fjölga um fimmtíu á þessu ári. 

Við erum með starfsfólk í fimm löndum en stærsti hluti okkar starfsfólks er á Íslandi. Á síðastliðnu ári höfum við aukið verulega við starfsemi okkar og þá sérstaklega á sviði rannsókna og þróunar til að styðja við alþjóðadreifingu á COVID-19 bóluefninu. Hluti af því var hröð þróun á hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausn okkar ásamt því að bæta greiningargetu innan Controlant lausnarinnar til muna.“ 

En vexti fylgja líka ýmsir vaxtaverkir og segir Gísli Controlant enga undantekningu á því.

„Viðskiptavinum hefur fjölgað ört og umsvifum þeirra einnig. Því höfum við ráðið nýtt starfsfólk og þurft að þjálfa á skömmum tíma. Við leggjum þó mikla áherslu á að viðhalda okkar gildum og þeirri sterku fyrirtækjamenningu sem býr innan Controlant,“ segir Gísli.


Tengdar fréttir

„Algjörlega galið“ að hvatarnir séu þveröfugir við markmiðin

„Kerfið er okkar helsta áskorun þar sem hvatar eru þveröfugir og hvetja enn til þess að plast og annað endurvinnanlegt efni er flutt óunnið úr landi eða urðað. Það er algjörlega galið þar sem það hefur verri áhrif á umhverfið til viðbótar við tækifærin, verðmætin og störfin sem skapast ef við byggjum virðiskeðjuna upp hér á Íslandi,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir forstöðumaður viðskipta og þróunar hjá fyrirtækinu Pure North.

Stefna á milljarð í veltu innan tveggja til þriggja ára

„Við erum nú þegar starfandi í þremur löndum og að vera dreift fyrirtæki er okkar styrkur. Við erum í samtölum við sjúkrahús, tryggingafélög, lyfjafyrirtæki og aðrar stofnanir í mörgum heimsálfum og munum einblína á að byggja upp þekkingu til að geta veitt viðskiptavinum okkar sem besta þjónustu,“ segir Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir framkvæmdastjóri RetinaRisk. 

„Hugmyndin kemur frá mér og Katrínu Tönju“

Alþjóðlega fyrirtækið STRAX var stofnað og er stjórnað af Íslendingum, er skráð hjá Nasdaq í Svíþjóð og hjá fyrirtækinu starfa um tvö hundruð manns. Fyrirtækið sérhæfir sig í dreifingu á aukahlutum fyrir farsíma en er um þessar mundir einnig í vöruþróun heyrnartóla undir vörumerkinu Dóttir.

Hringdu í fjárfesta í níu ár og velta nú milljarði

Benedikt Skúlason framkvæmdastjóri Lauf Forks segir umhverfi fjármögnunar nokkuð vanþróað á Íslandi fyrir nýsköpun. Fyrirtækið veltir nú tæpum milljarði og gerir ráð fyrir miklum vexti næstu árin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×