Körfubolti

„Eiga að sýna íslensku strákunum þá virðingu að taka alvöru Bandaríkjamann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Julian Wise er ekki að gera nóg fyrir Grindavíkurliðið og það munar mikið um það.
Eric Julian Wise er ekki að gera nóg fyrir Grindavíkurliðið og það munar mikið um það. Vísir/ Hulda Margrét

Framtíð bandaríska körfuboltamannsins Eric Julian Wise hjá Grindavík var til umræðu í Domino´s Körfuboltakvöldi í gærkvöldi þar sem fjallað var um níundu umferða.

Eric Wise skoraði 12 stig í tapleiknum á móti KR og hefur aðeins skorað samtals 46 stig í síðustu fimm leikjum liðsins eða undir tíu stigum að meðaltali í leik. Kjartan Atli Kjartansson vakti máls á þessu í þættinum.

„Verum alveg hreinskilnir. Eric Wise var hérna árið 2016, var frábær og var svo keyptur í aðra deild frá Grindavík eftir fimm leiki. Hann slítur hásin áður en hann kemur hingað aftur það er fyrir ári síðan. Hann var að jafna sig á síðustu leiktíð hvenær sem hún var,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.

„Hann er með þrettán stig í leik og maður horfir á líkamstjáninguna hans. Maður veit ekki alveg hvað maður á að halda,“ sagði Kjartan Atli.

„Í fyrsta lagi skil ég ekki hvað hann er að gera í liðinu fyrst að hann sleit hásin á þessum tíma. Menn vissu hvað yrði spilað ört og gátu því gert sér grein fyrir því að það væri ekki hægt að taka neina áhættu með leikmenn,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

Klippa: Framtíð Wise hjá Grindavík

„Það er eins og þú þurfir að trekkja hann í gang í leikjunum og hann byrjar yfirleitt ekki leikina fyrr en í seinni hálfleik þegar einhverjir eru búnir að nudda og hnoða hann í gang. Líkamstjáningin er síðan þannig að það er eins og hann hafi engan áhuga á því að vera hérna að öðru leyti en að fara niður í Landsbanka og ná sér í peninginn. Ég skil ekki hvað hann er að gera hérna ennþá,“ sagði Sævar.

„Ég var að fylgjast með plús og mínus tölfræðinni hjá honum og Lalla (Þorleifur Ólafsson) sem var að skipta við hann. Lalli er nýbyrjaður aftur en var plús sautján á meðan hann var mínus 23. Grindavík var framan af miklu betra með Wise á bekknum. Miðað við þennan leik þá finnst mér hann vera hættur að reyna,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

„Ég held að hann hafi einhverja hugmynd um að þetta sé að vera búið hjá honum,“ sagði Teitur.

„Þetta er svo ferlegt því ef þú horfir á töfluna þá er Grindavík bara á fínum stað miðað við allt og allt finnst mér. Íslendingarnir þeirra eru búnir að spila vel en það er kanaígildið þeirra, það er Wise sem er að klikka. Mér finnst að það eigi bara sýna þessum íslensku strákum þá virðingu að taka bara alvöru Bandaríkjamann. Ég skil ekki hvað Grindavík er ennþá að hugsa,“ sagði Teitur.

Það má finna alla umfjöllunina um Eric Wise hér fyrir ofan.


Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×