Viðskipti innlent

Dúi ráðinn verkefnastjóri miðlunar hjá Landgræðslunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dúi Landmark tekur við nýrri stöðu hjá Landgræðslunni.
Dúi Landmark tekur við nýrri stöðu hjá Landgræðslunni.

Dúi J. Landmark hefur verið ráðinn verkefnastjóri miðlunar hjá Landgræðslunni. Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla.

Um er að ræða nýtt starf sem er ætlað að styrkja fræðslu- og kynningarmál Landgræðslunnar sem hefur nú starfað í 114 ár að því að vernda og viðhalda þeim auðlindum þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.

„Vægi þessara málaflokka hefur aldrei verið jafn augljóst og nú, og því vill Landgræðslan sem þekkingar- og þjónustustofnun efla miðlun og upplýsingagjöf til almennings og hagaðila,“ segir í tilkynningunni.

Dúi lærði framleiðslu sjónvarps- og fjölmiðlaefnis auk ljósmyndunar í EFET skólanum í París frá 1986-1990 og útskrifaðist úr Markaðs- og útflutningsfræði frá HÍ 2003. Hann hefur fjölbreytta reynslu úr fjölmiðlun og efnisframleiðslu sem sjálfstæður framleiðandi og hefur framleitt og leikstýrt margskonar efni fyrir sjónvarpsstöðvar og almennan markað.

Dúi var upptökustjóri og umsjónarmaður fyrir „Ísland í dag“ á Stöð 2 frá 1996-2000, verkefnastjóri hjá margmiðlunarfyrirtækinu ZooM 2000-2001, og vann einnig sem leikstjóri og framleiðandi fyrir franskar sjónvarpsstöðvar á árunum 2001-2013. Hann hefur einnig stundað leiðsögn með erlenda ferðahópa til langs tíma, ljósmyndaferðir og ferðir almenns eðlis.

Hjá Landgræðslunni starfa um 60 starfsmenn að jafnaði auk sumarstarfsfólks, höfuðstöðvar hennar eru í Gunnarsholti á Rangárvöllum auk starfsstöðva á Egilsstöðum, Húsavík, Hvanneyri, Sauðárkróki og Reykjavík.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×