Viðskipti innlent

Össur hagnaðist um milljarð í fyrra

Samúel Karl Ólason skrifar
Sala á eignum Össurar hafði mikil áhrif á rekstrarniðurstöður ársins, auk heimsfaraldursins.
Sala á eignum Össurar hafði mikil áhrif á rekstrarniðurstöður ársins, auk heimsfaraldursins. Vísir/Vilhelm

Faraldur nýju kórónuveirunnar hefur komið niður á sölu Össurar á heimsvísu og þá sérstaklega í upphafi. Fyrirtækið hagnaðist um um það bil milljarð króna á síðasta ári, sem samsvarar um einu prósenti af veltu, en salan hefur færst í eðlilegra horf á síðustu mánuðum.

Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hagnaði Össur um um það bil milljarð króna.

Í tilkynningu vegna ársfjórðungsuppgjörs Össurar, sem birt var í morgun, segir að enn gæti þó áhrifa faraldursins á stórum mörkuðum. Heilt yfir dróst sala nokkuð saman hjá fyrirtækinu og var hún 630 milljónir dala í fyrra (81,5 milljarðar króna), samanborið við 686 árið 2019 (88,7 milljarðar króna).

EBITDA var 93 milljónir dala (Tólf milljarðar króna) í fyrra en var 141 milljón (18,2 milljarðar króna) árið 2019.

Í áðurnefndri tilkynningu segir að Össur hafi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs gengið frá sölu fyrirtækja í Bandaríkjunum. Þau fyrirtæki hafi aðallega selt spelkur og stuðningsvörur í Bandaríkjunum og hafi verið með um þrjá milljarða króna í ársveltu.

Á sama tímabili var gengið frá kaupum á öðrum fyrirtækjum sem eru með um fimm milljarða króna ársveltu.

Sala á eignum Össurar hafði mikil áhrif á rekstrarniðurstöður ársins, auk heimsfaraldursins.

Sjóðsstreymi frá 202 var um sextán milljarðar króna og handbært fé félagsins, auk ódreginna lánalína, var um 35 milljarðar króna í lok síðasta árs.

„Við erum sátt með rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins á þessu fordæmalausa ári 2020. Salan hefur verið að aukast og sjáum við jákvæðan innri vöxt í sölu stoðtækja á síðasta fjórðungi ársins,“ er haft eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra, í tilkynningunni.

„Sjóðsstreymi var sterkt á árinu þar sem áhersla var lögð á stjórnun veltufjár og fjárfestinga. Ég er sannfærður um að COVID-19 faraldurinn muni ekki leiða til breytinga á eftirspurn eftir okkar vörum og þjónustu til lengri tíma litið. Til að einfalda rekstur í spelkum og stuðningsvörum var ákveðið að selja hluta starfseminnar á árinu. Einnig var gengið frá kaupum á fyrirtækjum sem styrkja stöðu Össurar á lykilmörkuðum. Ég vill nýta tækifærið og þakka starfsmönnum okkar og viðskiptavinum fyrir sveigjanleika, góðan liðsanda og framlag þeirra á þessu krefjandi ári.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×