Körfubolti

Segir skrokkinn í góðum málum og leikina gegn Njarð­vík alltaf með þeim erfiðari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Milka fór hamförum gegn Njarðvík á föstudagskvöld.
Milka fór hamförum gegn Njarðvík á föstudagskvöld. Vísir/Daniel Thor

Dominykas Milka fór mikinn er Keflavík vann nágranna sína í Njarðvík í Dominos-deild karla í körfubolta á föstudagskvöld, lokatölur 90-77. Milka skoraði 32 stig og tók 17 fráköst. Hann var því eðlilega kampakátur er hann ræddi við Dominos Körfuboltakvöld að leik loknum.

„Fínn sem stendur, ég mun finna mest fyrir þessu á morgun,“ sagði Milka aðspurður hvernig skrokkurinn væri.

„Við æfum minna svo ég held að allir leikmennirnir njóti þess, það er skemmtilegra að spila en æfa. Við þurfum að vera faglegir, hugsa vel um líkamann, fara í kalda pottinn, teygja og allt þannig. Fyrir mig er þetta fínt sem er en við sjáum til hvernig þetta verður þegar líður á tímabilið,“ sagði leikmaðurinn öflugi um hina þéttu dagskrá sem er í Dominos-deildinni þessa dagana.

Um leikinn gegn Njarðvík

„Þetta er mikill nágrannaslagur og við viljum gefa 100 prósent í leikinn. Ég vil vera leiðtogi liðsins og stundum þarf maður að hætta að tala og vera gott fordæmi. Ég var heppinn í kvöld að geta sýnt gott fordæmi í leiknum.“

„Maður getur alltaf spilað betur, það er hugarfarið mitt. Það er orðatiltæki sem ég hef tileinkað mér: Þú ert aldrei jafn góður og fólk segir, þú ert heldur aldrei jafn lélegur og fólk segir.“

„Í vikunni eru allir að tala um að Keflavík og Njarðvík séu hlið við hlið. Það er alltaf mikið undir í þessum leik, skiptir engu máli hversu góð liðin eru því leikirnir eru alltaf erfiðir.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni. Það er á ensku og er ótextað.

Klippa: Milka eftir leikinn gegn NjarðvíkFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.