Viðskipti innlent

Vilja breyta hosteli við Hlemm í íbúðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Laugavegur 105 er hvíta húsið sem er hér á myndinni fyrir aftan Hlemm Mathöll.
Laugavegur 105 er hvíta húsið sem er hér á myndinni fyrir aftan Hlemm Mathöll. Vísir/Vilhelm

Eigendur hússins við Laugaveg 105 hafa sent inn fyrirspurn til skipulagsyfirvalda í Reykjavík þess efnis að fá að gera allt að 36 íbúðir á 3., 4. og 5. hæð hússins.

Gunnlaugur Jónasson, arkitekt, lagði fyrirspurnina fram fyrir hönd eigendanna á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur fyrr í mánuðinum og var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra að því er segir í frétt Morgunblaðsins um málið í dag.

Frá árinu 2013 var Hlemmur Square til húsa á Laugavegi 105 en um var að ræða nokkurs konar blöndu af hosteli og hóteli. Rekstrinum var hætt í nóvember í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Að því er fram kemur í Morgunblaðinu er áfram áformað að það verði miðbæjartengd starfsemi á 1. hæð hússins.

Samkvæmt núverandi lýsingu á starfsemi hússins eru nú skrifstofur á vegum Reykjavíkurborgar á þeirri hæð og veitingastaður, á 2. hæð eru ellefu íbúðir, á 3., 4. og 5. hæð hefur hostelið verið starfrækt og á 6. hæð eru tvær íbúðir.

Laugavegur 105 er við Hlemm. Það er svipmikið hús og sex hæðir þar sem það er hæst. Það var byggt í áföngum á árunum 1926-1947 og er teiknað af Einar Erlendssyni arkitekt.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×