Handbolti

Fullt af vítaskyttum í íslenska liðinu en vítin voru samt til vandræða í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson var aðalvítaskytta íslenska liðsins í gær en nýtti aðeins eitt af þremur vítum sínum.
Arnór Þór Gunnarsson var aðalvítaskytta íslenska liðsins í gær en nýtti aðeins eitt af þremur vítum sínum. Getty/Sven Hoppe

Íslenska landsliðið þarf að nýta betur vítin sín í næstu leikjum sínum og á HM í Egyptalandi. Það ættu að vera nóg af vítaskyttum í íslenska liðinu.

Það má segja að úrslitin í leik Íslands og Portúgals í undankeppni EM í gær hafi eiginlega ráðist á vítalínunni. Portúgalar fengu fjögur fleiri mörk úr vítum í gærkvöldi þrátt fyrir að fá bara einu víti fleira.

Íslensku vítaskytturnar klikkuðu á þremur af fimm vítum sinum á meðan Portúgalar nýttu öll sex vítin sín. Hinn 43 ára gamli markvörður Humberto Gomes varði bæði vítin sem hann reyndi við og aðalmarkvörðurinn varði eitt víti.

Fyrirliðinn Arnór Þór Gunnarsson klikkaði á tveimur af þessum vítum og Viggó Kristjánsson einu. Báðir skoruðu þeir síðan úr einu víti.

Það er athyglisvert að skoða vítanýtingu íslensku strákanna í bestu deild í heimi á þessu tímabili.

Í íslenska landsliðinu eru nefnilega fimm leikmenn sem eru vítaskyttur hjá sínum liðum í þýsku deildinni.

Arnór Þór Gunnarsson og Viggó Kristjánsson tóku þessi víti íslenska liðsins í gær en Bjarki Már Elísson, Ómar Ingi Magnússon, Oddur Grétarsson fengu ekki að taka víti þrátt fyrir að vera vítaskyttur sinna liða.

Leiðrétting: Vítanýting leikmanna í þýsku deildinni var ekki rétt í fréttinni þegar hún birtist fyrst en hefur nú verið leiðrétt.

Vítaskyttur íslenska landsliðshópsins í þýsku bundesligunni 2020-21:

  • Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg - 42 vítamörk og 86% vítanýting
  • Viggó Kristjánsson, Stuttgart - 39 vítamörk og 89% vítanýting
  • Oddur Grétarsson, Balingen - 39 vítamörk og 89% vítanýting
  • Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer - 29 vítamörk og 81% vítanýting
  • Bjarki Már Elísson, Lemgo - 27 vítamörk og 69% vítanýting



Fleiri fréttir

Sjá meira


×