Viðskipti innlent

Arion gerir sátt og greiðir 21 milljón í sekt

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningu frá bankanum segir að ekki sé um meiri háttar brot að ræða.
Í tilkynningu frá bankanum segir að ekki sé um meiri háttar brot að ræða. Vísir/Hanna

Arion banki og Fjármálaeftirlitið hafa gert samkomulag um að ljúka máli varðandi fjármögnun kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Sáttin felur í sér að bankinn viðurkennir að láðst hafi að skrá með skipulegum og formlegum hætti innan bankans greiningu hagsmunaárekstra í tengslum við kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum á árinu 2015. Sama er að segja um þátttöku þeirra í hlutafjárhækkunum Sameinaðs Sílikons hf. á árunum 2016 og 2017.

Bankinn mun greiða 21 milljón króna í sekt og verður gengið úr skugga að hið sama gerist ekki aftur. Hér má sjá niðurstöðuna á vef Fjármálaeftirlitsins.

Í tilkynningu frá bankanum segir að ekki sé um meiri háttar brot að ræða og kemur það sömuleiðis fram í niðurstöður FME. Arion hafi gegnt fjölþættu hlutverki við öflun fjármagns til uppbyggingar verksmiðjunnar og það hafi óhjákvæmilega falið í sér hagsmunaárekstra.

„Bankinn upplýsti viðskiptavini sína um þessi tengsl og gætti þess að til staðar væru viðeigandi mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar myndu skaða hagsmuni viðskiptavina. Hvorki voru gerðar athugasemdir við greiningu hagsmunaárekstra né mótvægisaðgerðir bankans en líkt og segir í sáttinni, láðist að skjala greiningu á hagsmunaárekstrum og hefur bankinn þegar brugðist við þessari yfirsjón og bætt innri skráningu hagsmunaárekstra,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×