Stjórnvöld leita nú leiða til þess að brúa 16 til 20 milljarða gat með skattahækkunum og niðurskurði í fjárlögum fyrir næsta ár. Meðal þess sem horft er til er að hækka virðisaukaskatt á gistikostnað í ferðaþjónustu úr sjö prósent í 25,5 prósent, það er úr neðsta þrepi í það efsta.
Eins og fréttastofa greindi frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hafa þessar hugmyndir mælst illa fyrir hjá þeim sem eru í forsvari fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi, en Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sagði hugmyndirnir óskiljanlegar og stórskaðlegar fyrir atvinnugreinina í heild, ekki síst þar sem hún ynni yfirleitt tvö ár fram í tímann og verðlagning næsta árs, hjá ferðaheildsölum erlendis, væri þegar ákveðin. Hækkunin myndi því engu skila fyrir ríkið, þegar heildarmyndin væri skoðuð, þar sem hún bitnaði beint á arðsemi fyrirtækjanna.
Stjórnvöld hafa enn ekki ákveðið hvort þessari hækkun verður haldið inn í fjárlögum, en samkvæmt drögum sem unnið er eftir er hækkunin inn í áformunum. Frekari kynning á einstökum aðgerðum, með hagsmunaðilum, fer fram á næstu vikum og mánuðum og verða lokaákvarðanir um hvernig gati í fjárlögum verður lokað þá teknar.
Framkvæmdastjóri hjá Icelandair: Hækkanirnar munu engu skila
