Viðskipti innlent

Þarf að auka traust á efnahagslífinu

Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segist fagna málefnalegu innleggi Viðskiptaráðs í umræðuna um afnám gjaldeyrishafta en tillögur sérfræðingahóps ráðsins um hvernig afnema megi höftin á einu ári voru kynntar í gær.

Áætlun hópsins snerist annars vegar um að losa um hina svokölluðu snjóhengju óþolinmóðs fjármagns með því að gefa eigendum króna kost á að bjóða í langtíma ríkisskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, og hins vegar um afnám gjaldeyrishafta í þrepum.

Arnór segir talsverðan samhljóm milli tillagna hópsins og áætlunar Seðlabankans þótt áherslur séu aðrar. Seðlabankinn geri ráð fyrir að langtíma ríkisskuldabréf verði boðin út í erlendum gjaldmiðlum þótt slíkt útboð hafi ekki verið útfært.

Arnór segir þá lausn fyrst og fremst lúta að þeim hluta vandans sem felist í aflandskrónum í formi eignar á ríkisskuldabréfum. Hins vegar komi ekki til greina að leysa hinn helming vandans, innistæður erlendra aðila, með þessum hætti.

„Þá værum við að færa skuld einkageirans, aðallega bankanna, yfir á ríkissjóð. Skuldir ríkissjóðs myndu aukast sem hefði áhrif á lánshæfismat landsins og gæti valdið verulegum erfiðleikum,“ segir Arnór og telur jafnframt að við núverandi aðstæður yrði ekki mikil eftirspurn eftir þessu meðal aflandskrónueigenda. Fyrst þurfi að auka traust á íslensku efnahagslífi og í því samhengi sé lykilatriði að áfram verði rekin aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×