Viðskipti innlent

Farþegum með skemmtiferðaskipum heldur áfram að fjölga

Fari svo að farþegum sem koma með skemmtiferðskipum til Íslands fjölgi jafnört á næstu árum og verið hefur undanfarna áratugi mun fjöldi þeirra fara yfir 200.000 árið 2020.

Ný skýrsla um komur farþega til Íslands með skemmtiferðaskipum sýnir að þeim hefur fjölgað um yfir 9% á ári frá árinu 1983 og þar til í ár. Raunar hefur fjöldi þeirra nær tólffaldast á þessu tímabili. Árið 1983 heimsóttu 8.000 farþegar Ísland með skemmtiferðaskipum. Í ár verða þeir um 92.000 talsins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Faxaflóahafna en þær stóðu að þessari skýrslu. Það er einkum sífellt stærri skip sem skýra aukinn fjölda farþega að hluta til. Þannig komu að meðaltali 430 farþegar með hverju skemmtiferðaskipi árið 1983 en í ár eru að meðaltali um 1.300 farþegar um borð í hverju skipi.

Skýrsluhöfundar reyna að meta hve fjöldinn verði á næstu árum og leggja líkan frá Oslóarhöfn til grundvallar enda er áframhaldandi 9% vöxtur óraunhæfur. Ef aukningin verður 6% á ári héðan í frá munu tæplega 160.000 farþegar koma með skemmtiferðaskipum til Íslands árið 2020.

Þessi farþegafjöldi eykur tekjur Faxaflóahafna. Í fyrra nam tekjuaukningin 140 milljónum króna en sú upphæð fer yfir 200 milljónir króna í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×