Handbolti

HM 2013: Tilfinningin er góð og við erum vel undirbúnir

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Vignir Svavarsson skemmti sér vel á æfingu íslenska landsliðsins í dag í Sevilla.
Vignir Svavarsson skemmti sér vel á æfingu íslenska landsliðsins í dag í Sevilla. Vilhelm
"Tilfinningin er góð. Við erum búnir að æfa vel og erum vel undirbúnir. Við höfum kortlagt rússneska liðið mjög vel. Og aðbúnaðurinn er góður. Við getum ekki annað en verið spenntir,“  sagði Vignir Svavarsson leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik  við Vísi í Sevilla í dag. Vignir fær stórt hlutverk í vörn íslenska liðsins á HM og hann er tilbúinn í þann slag og telur sigurlíkurnar gegn Rússum í fyrsta leiknum á morgun vera ágætar.

„Ég hef verið í aðstoðaðarhlutverki undanfarin ár en ég tek þessu nýja hlutverki fagnandi. Það er gaman að sjá nýja leikmenn koma sterka inn í hópinn. Þeir hafa margir tekið stór skref og það verður gaman að fylgjast með þeim. Það vantar sterka leikmenn í hópinn en með fullri virðingu fyrir þeims em vantar þá koma bara aðrir í þeirra stað. Ég hef engar áhyggjur af því, við spilum með það lið sem við höfum, og gerum það besta úr því."

Vignir segir að leikmenn setji pressu á sig sjálfir en hann hefur ekki orðið var við mikla pressu frá íslensku þjóðinni og stuðningsmönnum landsliðsins. „Við gerum þá kröfu að vera á meðal þeirra bestu – og það er nóg pressa að mínu mati."

Vignir verður að mestu í hlutverki varnarmanns á þessu móti en hann á eflaust eftir að lauma inn mörkum úr hraðaupphlaupum. Hann býst við gríðarlega erfiðum leik gegn Rússum. „Þeir eru „stórt" verkefni. Við mættum þeim hérna rétt áðan og þetta eru stórir leikmenn. Þetta verður erfitt og mikil barátta, en við ætlum okkur sigur og ekkert annað kemur til greina."

Hver er lykillinn að því að vinna Rússa?

„Við þurfum að spila vörnina með ákefð, koma vel á móti þeim, og nýta okkur það að við erum aðeins minni og fljótari. Og það eru margir þættir sem þurfa að smella saman, vörn, sókn og markvarsla."

Fyrir nokkrum árum var það talið óðs manns æði að tala um að Ísland gæti lagt Rússa að velli, í dag er það sjálfsögð krafa, hvað hefur breyst?

„Í dag erum við með það gott lið að það er raunhæf krafa á okkur að vinna allar þjóðir," sagði Vignir Svavarsson án þess að hika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×