Lífið

Án rafmagns í sumarfríinu

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Móeiður Helgadóttir eyðir sumarfríunum án rafmagns og heitaveitu.
Móeiður Helgadóttir eyðir sumarfríunum án rafmagns og heitaveitu.
Þetta er besta frí sem hægt er að hugsa sér, að komast burt frá öllu í þetta langan tíma. Ég elska líka íslenska sumarið. Finnst eiginlega sóun að fara til útlanda á sumrin,“ segir Móeiður Helgadóttir leikmyndahönnuður en hún eyðir sumarfríunum ásamt kærastanum, Agli Ingimarssyni, í eyðibýli í Kelduhverfi.

Þar er hvorki heitt vatn né rafmagn svo öðruvísi þarf að hafa fyrir hlutunum en þar sem öll nútímaþægindi eru til staðar.

Móeiður segir fríið nýtt í göngu- og veiðitúra. Þau njóti þess að gera sem minnst þessa daga.
„Við hitum upp með eldiviði en getum notað gas ef það er mjög kalt. Það er rafstöð á staðnum en við höfum ekki kveikt á henni, nema rétt til að ryksuga þegar við förum. Í sumar fengum við lánaðar þrjár hænur og tvo hesta og dagarnir fóru í að sofa út, sækja egg og gefa hænunum. Við keyrum um nágrennið og förum í gönguferðir, skreppum á hestbak og veiðum, en annars njótum við þess að gera sem minnst,“ segir Móeiður og bætir við að þau sakni í raun engra þæginda. Það sé helst þvotturinn sem einhver vandræði verði með.

„Handklæði og viskustykki geta orðið að vandamáli, en föt þarf ekki að þvo eins oft. Við erum bara með sumarföt og vinnugalla, forljótar flísbuxur sem auðvelt er að skola úr og eru fljótar að þorna. Stundum laumumst við líka til að taka með okkur þvott þegar við förum eitthvert í heimsókn. En þá erum við auðvitað að svindla,“ segir Móeiður hlæjandi.

„Við höfum líka alveg velt fyrir okkur að fá okkur gasísskáp og einfalda okkur vistina, en okkur finnst þetta samt fínt svona. Við fáum ís í fiskvinnslu í nágrenninu sem við höfum í frauðplastkössum og geymum matinn þar í. Matseðillinn er því kannski aðeins öðruvísi uppbyggður en venjulega þegar aðgangur er að ísskáp.“

Geitur kíkja í heimsókn.
Móeiði og Agli líkar vistin vel. Þau eiga hvort sinn unglinginn sem hafa verið hluta úr fríunum með þeim á eyðibýlinu. Þeir eru víst ekki eins spenntir og foreldrarnir.

„Tölvuleysið angrar þá svolítið. Þeir voru frekar fúlir fyrsta sumarið en ég held að þeir séu þó farnir að meta þetta,“ segir Móeiður hlæjandi. „Þeim finnst allavega gaman þegar við erum að brasa eitthvað, eins og að smíða hænsnakofann. Þeir hafa ekki verið allan tímann svo þess vegna sleppur þetta alveg. Kannski myndum við sjálf ekki endast lengur. Fjórar vikur eru alveg temmilegur tími,“ segir Móeiður. Hún bætir við að vistin hafi ekki breytt lífsstíl fjölskyldunnar varanlega.

„Ég elska íslenska sumarið. Finnst eiginlega sóun að fara til útlanda á sumrin.“ segir Móeiður.
„Ég er ekki viss um að ég vildi þurfa að hita upp með eldiviði og sjóða vatn í alla þvotta og böð meðan ég er í fullri vinnu. Þetta er frábært þegar ég er í fríi og er ekki að gera neitt annað á daginn. Dagstakturinn er allt öðruvísi í Reykjavík. Mig langar reyndar svolítið til að fá mér hænur í bakgarðinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.