Viðskipti innlent

Fréttablaðið hættir að koma út á mánudögum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Torgs við Hafnartorg.
Höfuðstöðvar Torgs við Hafnartorg. vísir/vilhelm

Forsvarsmenn Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar og DV, hyggjast hætta útgáfu Fréttablaðsins á mánudögum, frá og með næstu mánaðamótum. Útgáfudagarnir verða því fimm í viku. Starfsmönnum var tilkynnt um breytingarnar í morgun.

Á vef blaðsins segir að um sé að ræða „hagræðingu í rekstri fjölmiðla Torgs“ og bætir forstjóri félagsins um betur. Fækkun útgáfudaga hafi verið „nauðsynleg hagræðingaraðgerð“ að sögn Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur. Engin önnur breyting verði þó á starfsemi annarra miðla félagsins og að engar uppsagnir séu fyrirhugaðar samhliða þessum breytingum.

Mikið hefur gengið á í rekstri Torgs á undanförnum misserum. Síðasta stóra vendingin var í lok marsmánaðar þegar Samkeppniseftirlitið lagði blessun sína á kaup Torgs á eignum Frjálsrar fjölmiðlunar sem gaf út DV og samnefndan vef. Frjáls fjölmiðlun réðst í á annan tug uppsagna vegna þessa.

Áður hafði Torg runnið saman við Hringbraut sem rekur sjónvarpsstöð og undirvef. Í gögnum Samkeppniseftirlitsins um þann samruna koma fram að Hringbraut hefði farið í þrot ef að viðskiptin hefðu ekki gengið í gegn.

Helgi Magnússon fjárfestir er eigandi Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, og sömuleiðis sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar. Helgi keypti Fréttablaðið í tveimur aðskildum viðskiptafléttum, fyrst helminginn sumarið 2019 og svo restina í október síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Tobba Marinós nýr ritstjóri DV

Þorbjörg Marinósdóttir, betur þekkt sem Tobba Marinós, hefur verið ráðinn ritstjóri DV og DV.is. Hún tekur við starfinu af Lilju Katrínu Gunnarsdóttur sem lét af störfum í gær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×