Viðskipti innlent

Samkomubannið minnkaði eldsneytissölu um tugi prósenta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eldsneyti þykir ekki jafn eftirsóknarvert og áður, nú þegar ferðum hefur fækkar í faraldri.
Eldsneyti þykir ekki jafn eftirsóknarvert og áður, nú þegar ferðum hefur fækkar í faraldri.

Kúvending varð á sölu eldsneytis eftir gildistöku samkomubannsins vegna kórónuveirunnar þann 16. mars. Fram að samkomubanni hafði salan verið um 8 prósent meiri en í mars í fyrra en í lok mánaðar var hún orðin um 42 prósent minni en meðalsalan á venjulegum marsdegi árið 2019.

Salan hefur minnkað enn meira síðan þá. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar er meðalsalan það sem af er apríl um 68 prósent lægri en sömu daga í fyrra.

Hluta þessa samdráttar má rekja til minni aksturs erlendra ferðamanna. Þannig segir Hagstofan að dagana fyrir samkomubann hafi um 9 prósent eldsneytissölu verið greidd með erlendum greiðslukortum. Hlutfallið var hins vegar komið undir 1 prósent um miðjan mars. Eftir að samkomubann var sett á dró úr sölu eldsneytis nokkuð stöðugt á milli vikna, en þó mældst nokkur aukning í sölu í byrjun apríl að sögn Hagstofunnar.

Hagstofan

Minni eldsneytiskaup á Íslandi tónar við þróunina úti í heimi. Meðfram því sem sífellt stærri hluta heimsbyggðarinnar var gert að búa við hvers kyns samkomu- og útgöngubönn minnkað eftirspurnin eftir eldsneyti, enda minni þörf á bensíni og olíu þegar sjaldnar er ferðast.

Fyrir vikið hefur bensínverð lækkað nokkuð skarpt á síðustu mánum. Verð á tunnu af Brent-hráolíu úr Norðursjó hefur þannig lækkað um næstum 70 prósent frá upphafi árs. Svipaða sögu er að segja af verði annarra tunna sem hafa ekki aðeins mátt þola minni eftirspurn heldur jafnframt verðstríð Sádí-Araba og Rússa. Samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, samþykktu á dögunum að draga úr framleiðslu um allt að 20 prósent til að sporna við frekari verðlækkunum.

Olíuverð á Íslandi hefur lækkað samhliða þessum vendingum. Bensínlítrinn kostaði t.a.m. rúmlega 242 krónur hjá N1 í upphafi árs en kostar núna um 212 krónur, lækkun upp á þrjátíu krónur á lítra. Eftir sem áður er bensínlítrinn ódýrastur hjá Costco. Þar var rukkað 198 krónur fyrir lítrann um áramót en 180 krónur í dag.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×