Handbolti

Rakel Dögg: Töpum ekki gleðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir, landsliðsfyrirliði, segir að leikmenn hafi ekki tapað gleðinni þó svo að Ísland hafi tapað sínum fyrstu tveimur leikjum á EM í handbolta.

„Okkur líður bara þokkalega í dag. Það er alltaf fúlt að tapa og við vorum ekki sáttar við leikinn þó svo að hann hafi verið betri en fyrsti leikurinn," sagði Rakel við Vísi fyrir utan hótel landsliðsins í Árósum í dag.

„Við erum nú að vinna í því að koma stemningunni aftur upp í hópnum. Ég held að það verði ekki vandamál og að við verðum allar rétt stemmdar fyrir leikinn á morgun."

„Gleðin fer ekki. Þessar stelpur eru alltaf hressar og það er ávallt gaman og mikið hlegið. En við tökum handboltann alvarlega og verðum svekktar þegar við töpum."

Hún segir að það þýði ekkert að slaka á enda leikur á morgun gegn heimsmeisturum Rússa.

„Við höfum rætt hlutina og farið yfir það jákvæða sem við gerðum í gær. Við höfum einnig skoðað það sem betur má fara. Undirbúningurinn heldur því bara áfram enda verður það að vera þannig."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×