Viðskipti erlent

Easyjet kyrrsetur flotann og starfsfólk beðið um að aðstoða heilbrigðiskerfið

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftirspurn eftir flugferðum hefur hrunið vegna heimsfaraldursins. Því hefur Easyjet ákveðið á kyrrsetja á fjórða hundrað flugvéla í bili.
Eftirspurn eftir flugferðum hefur hrunið vegna heimsfaraldursins. Því hefur Easyjet ákveðið á kyrrsetja á fjórða hundrað flugvéla í bili. Vísir/EPA

Allur floti flugfélagsins Easyjet verður kyrrsettur til að draga úr kostnaði á meðan eftirspurn liggur í lamasessi vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Þá hefur félagið náð samkomulagi við stéttarfélag starfsmanna um að áhafnir verði sendar í leyfi. Bresk stjórnvöld vilja að starfsmenn flugfélaga vinni sjálfboðaliðastörf á sjúkrahúsum.

Floti Easyjet telur 344 flugvélar og munu þær standa óhreyfðar á næstunni. Breska flugfélagið vísar í fordæmalausar ferðatakmarkanir sem ríki heims hafa komið á til að hefta útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19-sjúkdómnum, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Á þessu stigi er engin vissa um hvenær farþegaflutningaflugi verður haldið áfram. Við höldum áfram að meta ástandi stöðugt byggt á reglum og eftirspurn og látum markaðinn vita þegar við höfum skoðun,“ segir í tilkynningu Easyjet.

Samkvæmt samkomulagi sem flugfélagið gerði við stéttarfélag starfsmanna verða áhafnir settar í leyfi í tvo mánuði og fá þær 80% launa sinna greidd frá breska ríkinu á meðan. Félagið segist þó standa vel og að viðræður við lánveitendur standi yfir.

Bresk stjórnvöld hafa boðið þúsundum starfsmanna flugfélaga sem sitja nú auðum höndum vegna faraldursins að vinna sem sjálfboðaliðar á sérstökum sjúkrahúsum sem verða sett upp fyrir COVID-19-sjúklinga. Easyjet segist hafa komið þeim skilaboðum til um 9.000 starfsmanna sinna og Virgin Atlantic til um 4.000 starfsmanna.

Heilbrigðisstofnun Bretlands (NHS) segir að fólkið yrði sett í ýmis störf eins og að skipta um á sjúkrarúmum, huga að sjúklingum og aðstoða lækna og hjúkrunarfræðinga í að bjarga mannslífum, að því er segir í frétt Washington Post.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×