Viðskipti innlent

IKEA lokað um óákveðinn tíma vegna kórónuveirunnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekki verður mikið um heimsóknir í IKEA á næstunni.
Ekki verður mikið um heimsóknir í IKEA á næstunni. Vísir/HANNa

Verslun IKEA í Garðabæ verður lokað í kvöld og mun hún ekki opna aftur fyrr en aðstæður leyfa annað. Hert samkomubann tekur gildi nú á miðnætti en það felur í meginatriðum í sér bann við því að fleiri en tuttugu manns komi saman í einu rými.

Með þessu vilja forsvarsmenn IKEA fara að tilmælum yfirvalda og með því tryggja öryggi starfsfólks og viðskiptavina.

Að sögn Guðnýjar Camillu Aradóttur, sem er yfir samskiptamálum hjá fyrirtækinu, höfðu stjórnendur IKEA hér á landi reynt að hugsa fram í tímann og miðaðist möguleg lokun verslunarinnar alltaf við þá fjöldatakmörkun sem stjórnvöld myndu leggja á.

„Miðað við þetta marga þá gengur þetta bara ekki upp að verslunina opna og að sjálfsögðu ekki veitingastaðinn, þannig að þessi ákvörðun lá beint fyrir miðað við fréttir gærdagsins.“

Gripið var til sérstakra ráðstafanna eftir að fyrra samkomubannið tók gildi sem miðaðist við hundrað manns og tókst IKEA að halda stórverslun sinni opinni.

Þá var rýminu skipt niður í sex svæði, talið inn í verslunina og viðskiptavinir beðnir um að virða tveggja metra regluna í hvívetna.

Ljóst er að slíkar aðgerðir myndu ekki duga til að framfylgja hertum fjöldatakmörkunum.

Enn verður hægt að sækja vörur sem pantaðar eru í netverslun fyrirtækisins, að sögn Guðnýjar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×