Innlent

Börn í Vestmannaeyjum virðast ekki hafa dreift smiti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gríðarlega umfangsmikil skimun hefur staðið yfir í Vestmannaeyjum síðustu daga. Flest sýni miðað við höfðatölu hafa verið tekin í Eyjum af öllum sveitarfélögum á Íslandi.
Gríðarlega umfangsmikil skimun hefur staðið yfir í Vestmannaeyjum síðustu daga. Flest sýni miðað við höfðatölu hafa verið tekin í Eyjum af öllum sveitarfélögum á Íslandi.

„Börnin virðast ekki vera mikið útsett fyrir smiti eða vera að dreifa smiti og það eru gríðarlega góðar fréttir fyrir okkur öll.“

Þetta er mat Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, að lokinni umfangsmikilli skimun eftir kórónuveirunni meðal grunnskólabarna í bæjarfélaginu. Ekkert þeirra tuga barna sem skimuð voru í 1. til 4. bekk Grunnskóla Vestmannaeyja reyndist smitað og ekkert í 7. bekk heldur.

Þó hafa tvö börn greinst með veiruna í Vestmannaeyjum, annað 2 ára og hitt 15 ára. Hvorugt þeirra er þó mikið lasið að sögn Páleyjar. Alls hafa nú 30 manns smitast í Vestmannaeyjum og sagði Páley í samtali við fréttastofu í gær að þau væru úr mismunandi áttum. Þá er á fimmta hundrað Eyjamanna, um 11 prósent allra Vestmanneyinga, í sóttkví sem stendur. Þannig var ferð Herjólfs seinkað í gær, sérstaklega til að geta flutt sýni úr Vestmanneyjum til rannsóknar í Reykjavík.

Flest sýni miðað við höfðatölu hafa verið tekin í Vestmannaeyjum, auk þess sem samkomubann þar var hert þannig að aðeins mega 10 manns koma saman. Þá var tekin ákvörðun um að skólahald í Grunnskóla Vestmannaeyja verði í formi fjarkennslu frá og með deginum í dag þar til annað verður tilkynnt.

„Farnar hafa verið ýmsar leiðir í því að beita forvirkum aðferðum, skima ákveðna hópa og herða á sóttkví og einangrun. Við vonum svo sannarlega að þessar aðferðir skili árangri en að öllum líkindum eigum við enn eftir að fá fleiri smit, sérstaklega í hópi nánustu aðstandenda smitaðra,“ skrifar Páley Borgþórsdóttir á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×