Viðskipti innlent

„Förum var­lega nú þegar við erum komin á loka­sprettinn“

Tinni Sveinsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti ræðu hjá Samtökum iðnaðarins í gær.
Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti ræðu hjá Samtökum iðnaðarins í gær.

Samtök iðnaðarins héldu í gær viðburð í tilefni þess að ár nýsköpunar er senn á enda. Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti ræðu af þessu tilefni þar sem hann hvatti landsmenn til dáða, bæði í virkjun hugvits og í baráttunni við heimsfaraldurinn.

Í ársbyrjun blésu Samtök iðnaðarins formlega til Árs nýsköpunar hér á landi. Með viðburðinum í gær lauk því formlega og var af því tilefni frumsýnt myndband, sem sjá má hér fyrir neðan, þar sem Íslendingar eru hvattir til þess að virkja hugvitið í meira mæli en áður.

Lausn faraldursins

„Nýsköpun stendur fyrir að leita lausna. Um allan heim hafa vísindamenn unnið að lausnum. Leitað lyfja, lækninga, leitað að bóluefni. Lausn okkar vanda liggur í vísindum, rannsóknum, þekkingu, frumkvæði. Í nýsköpun. Við getum leyft okkur að horfa björtum augum fram á veg,“ sagði Guðni í ræðu sinni.

Sýnum áfram samstöðuanda

„Ár nýsköpunar er á enda runnið með formlegum hætti en andi nýsköpunar svífur enn yfir vötnum hér á landi. Okkur öllum til heilla,“ sagði forsetinn áður en hann óskaði landsmönnum gleðilegra jóla og hvatti þá til dáða.

„Ég bið ykkur um að fara varlega nú þegar við erum komin á lokasprettinn, að því er vænta má, í þessari baráttu okkar. Á ég þá von á því að við sýnum áfram þann samstöðuanda sem við höfum búið yfir og hefur gert okkur kleyft að takast eins vel og unnt er á við vanda þess árs sem nú er senn á enda.“

Hægt er að horfa á útsendinguna frá viðburðinum í gær hér fyrir neðan. Auk ræðu forsetans flytja Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri ávörp. Sigríður Mogensen, sviðstjóri hugverkasviðs, var fundarstjóri. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×