Handbolti

„Margar ákvarðanir þríeykisins sem maður skilur ekki“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arnar Daði Arnarsson.
Arnar Daði Arnarsson. Stöð 2/Skjáskot

Arnar Daði Arnarsson er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild en hann þjálfar handboltalið Gróttu sem hefur lítið fengið að spreyta sig á leiktíðinni vegna kórónuveirufaraldursins.

Þetta var ekki frumraunin sem Arnar Daði bjóst við en Grótta hafði aðeins leikið fjóra leiki í Olís-deildinni þegar íþróttahúsum landsins var skellt í lás í haust.

Guðjón Guðmundsson, Gaupi, ræddi við Arnar Daða í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Maður bjóst alls ekki við þessu. Þetta er hundleiðinlegt. Maður er búinn að bíða eftir því að þjálfa í efstu deild lengi og svo var þessu kippt frá manni sisvona,“ segir Arnar Daði sem á bágt með að skilja þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í hér á landi vegna faraldursins.

„Það er mikil pólitík í þessu. Margar ákvarðanir sem hafa verið teknar af þessu svokallaða þríeyki sem maður bara skilur ekki,“ segir Arnar Daði.

Bendir Arnar á, máli sínu til stuðnings, að fyrir fimm vikum hafi fullorðnir mátt æfa en ekki börn og nú fái börn að æfa en ekki fullorðnir. Arnar kallar eftir svörum.

„Það er enginn sem getur svarað þessu (innsk.blaðamanns: hvað framtíðin ber í skauti sér). Það veit enginn svarið. Svörin sem maður fær, bæði frá sambandinu og þessu þríeyki, eru engin. Maður vill fá svör frá sambandinu hvað þeir ætla að gera. Á að spila úrslitakeppnina? Á að klára bikarinn eða verður mótið stytt?“

Viðtal Gaupa við Arnar Daða í heild má sjá hér neðst í fréttinni.

Klippa: Sportpakkinn: Arnar Daði



Fleiri fréttir

Sjá meira


×