Skellur gegn Slóveníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir er leikstjórnandi íslenska liðsins.
Þóra Kristín Jónsdóttir er leikstjórnandi íslenska liðsins. Vísir/Bára

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tapaði í dag fyrir Slóveníu í undankeppni EuroBasket 2021, 94-58. Þetta var þriðja tap Íslands í riðlinum í jafn mörgum leikjum.

Stelpurnar hafa verið í búbblu undanfarna daga en þær leika tvo leiki á Grikklandi; leikinn í kvöld gegn Slóveníu og svo annan á laugardag.

Það var ljóst að leikurinn í kvöld yrði afar erfiður. Lykilmenn eins og Helena Sverrisdóttur og Hildur Björg Kjartansdóttir voru ekki með. Það var þó fínn kraftur í íslenska liðinu í upphafi leiks.

Íslenska liðið var þremur stigum undir, 15-12, um miðjan fyrsta leikhluta en þá tóku þær slóvensku við sér og sýndu mátt sinn og megin. Þær skoruðu tólf stig í röð og voru þrettán stigum yfir fyrsta leikhlutann, 17-30.

Eftir að stelpurnar minnkuðu muninn í tíu stig, 22-32, skoruðu þær slóvensku átta stig í röð og komu sér aftur í þægilega forystu. Fín barátta var í íslenska liðinu en þær slóvensku klúðruðu þó nóg af galopnum skotum. Staðan í hálfleik, 58-31, Slóveníu í vil.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningnum. Þrátt fyrir áhlaup íslenska liðsins héldu þær slóvensku alltaf góðri forystu. Þær leiddu með 29 stigum eftir þriðja leikhlutann, 77-48, og lokatölurnar urðu svo að endingu, 94-58.

Sara Rún Hinriksdóttir var í sérflokki í liði Íslands. Hún gerði 23 stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Næst kom Þóra Kristín Jónsdóttir með tíu stig og Bríet Sif Hinriksdóttir gerði átta.

Sigrún Sjöfn Ámunadóttir gerði sex stig, Lovísa Björt Henningsdóttir var með fimm stig, Hallveig Jónsdóttir fjögur og Ísabella Ósk Sigurðardóttir tvö.

Ef litið er til tölfræðinnar í leiknum má sjá mikinn mun á fráköstunum. Slóvenarnir tóku 58 fráköst gegn 33 fráköstum Íslands.

Seinni leikurinn í glugganum verður á laugardaginn gegn Búlgaríu. Ísland er án stiga í riðlinum en Slóvenía er með fullt hús eftir fyrstu þrjá leikina.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.