Erlent

Banda­ríkin form­lega gengin úr Parísar­sam­komu­laginu

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur losað um regluverk sem ætlað er að stuðla að aukinni umhverfisvernd.
Donald Trump hefur losað um regluverk sem ætlað er að stuðla að aukinni umhverfisvernd. Getty

Bandaríkin eru formlega gengin úr Parísarsamkomulaginu frá og með deginum í dag. Samkomulagið er frá árinu 2015 og kveður á um skuldbindingar ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti Sameinuðu þjóðunum á síðasta ári frá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að segja sig frá samkomulaginu. Parísarsamkomulagið kveður hins vegar á um eins árs biðtíma, ákveði ríki að segja sig frá því, og lauk honum í tilviki Bandaríkjanna í gær.

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur sagst vilja að Bandaríkin gerist aðili að samkomulaginu á ný. Hefur hann sagt ljóst að mannkyni stafi hætta af loftslagsbreytingum og að Bandaríkin hafi siðferðislega skyldu til að bregðast við. Enn er óljóst hver bar sigur úr býtum í forsetakosningunum sem fram fóru í Bandaríkjunum í gær.

Trump tilkynntu um þá stefnu sína að segja sig frá Parísarsamkomulaginu árið 2017, en samkomulagið meinaði þátttökuríkjum að gera slíkt á fyrstu þremur árum eftir undirritun.

Bandaríkin er það ríki heims sem mengar næstmest á eftir Kína. Í forsetatíð sinni hefur Trump margoft dregið loftslagsvísindi í efa og talað fyrir aukinni olíu- og kolavinnslu. Á sama tíma hefur hann losað um allt regluverk í Bandaríkjunum sem ætlað er að stuðla að aukinni umhverfisvernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×