Kirkjumálasjóður hefur selt fyrrum húsnæði Biskupsstofu við Laugaveg 31. Fyrirtækið S&H Invest hefur keypt húsið og er það í eigu Valdimars Kristins Hannessonar og fjölskyldu hans að því er fram kemur í frétt RÚV.
Valdimar, ásamt Rúnari Ómarssyni og Aðalheiði Birgisdóttur, stofnaði fatamerkið Nikita áður en það var selt finnsku íþróttavörusamsteypunni Amer Sports.
Kirkjuráð samþykkti tilboð í húsnæðið um miðjan september síðastliðinn en samningnum hefur enn ekki verið þinglýst. Þá hefur ekki fengist uppgefið hver kaupupphæðin hafi verið á húsinu en verð sem sett var á eignina voru 570 milljónir.
Húsnæðið hefur ekki verið í notkun í um ár eftir að Biskupsstofa flutti alla sína starfsemi í Katrínartún og lá þá endanlega fyrir að selja þyrfti húsið. Þjóðkirkjan hefur lengi reynt að selja húsið við Laugaveg 31 en fyrir þremur árum síðan bárust nokkur tilboð í eignina en þeim var öllum hafnað, þar á meðal staðgreiðslutilboði frá M3 Capital ehf.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækjasölunni Suðurveri að nýir eigendur segist sjá tækifæri í þeirri þróun Laugavegarins að færast meira yfir í göngugötu og hyggjast þeir koma á fjölbreyttri starfsemi í húsinu.
Húsið hefur ávallt verið talið einstaklega veglegt en það er 1.540 fermetrar að stærð og eru upphleyptar myndir af gríska guðinum Hermesi á svölum hússins. Húsið var teiknað af Einari Erlendssyni húsameistara fyrir Martein Einarsson Kaupmann og var það reist á árunum 1928-1930.