Viðskipti innlent

IKEA-geitin komin á sinn stað og ljósin brátt tendruð

Atli Ísleifsson skrifar
IKEA-geitin, guðdómleg á að líta á stöpli sínum eins og venjulega.
IKEA-geitin, guðdómleg á að líta á stöpli sínum eins og venjulega. Vísir/Vilhelm

IKEA-geitinni var komið á sinn stað fyrir framan verslun IKEA í Kauptúni í Garðabæ í gær. Til stendur að tendra á ljósunum síðdegis í dag eða þá á morgun.

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir atburðinn vera boðbera jólanna hjá IKEA. Verið sé að skreyta bílaplanið og koma versluninni í jólabúning.

„Þetta er í þriðja sinn sem þessi ákveðna geit fer upp,“ segir Stefán. Árið 2017 var síðast kveikt í geitinni en hún hefur fengið að standa svo gott sem óáreitt síðustu ár eftir nokkur hamfaraár þar á undan.

Stefán segir að til standi að tendra ljósin á geitinni seinni partinn í dag eða á morgun. Hann sé sjálfur spenntur.

Rætur til Gävle

Segja má að geitin eigi ættir að rekja til borgarinnar Gävle í Svíþjóð þar sem geit var fyrst reist á aðaltorgi bæjarins árið 1966. Örlög hennar þar í bæ hafa oft verið þau sömu og á Íslandi en í Gävle hefur geitin verið eyðilögð hátt í fimmtíu sinnum. Hefur í flestum tilvikum verið kveikt í geitinni en einnig hefur bílum verið ekið á hana.

Á Íslandi hefur bæði verið kveikt í geitinni og þá hefur veðrið stundum leikið hana grátt. Þá kviknaði í henni árið 2015 af völdum útiseríu sem hafði verið vafin umhverfis.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×