Heimsmarkmiðin

Jemen: Átta af hverjum tíu þurfa á mannúðaraðstoð að halda

Heimsljós
112 þúsund börn undir fimm ára hafa fengið lífsnauðsynlega meðhöndlun við vannæringu í Jemen á þessu ári
112 þúsund börn undir fimm ára hafa fengið lífsnauðsynlega meðhöndlun við vannæringu í Jemen á þessu ári Unicef

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) vekur athygli á ástandinu í Jemen og dregur upp þá ímynduðu stöðu að í landinu væru 100 börn. „Þá þyrftu 85 þeirra nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda, 70 þeirra hefðu ekki aðgang að sápu, 60 þeirra hefðu ekki nægan aðgang að vatni og 42 þeirra væru í hættu á alvarlegri vannæringu. Þetta eru sláandi tölur,“ segir í frétt UNICEF.

Þar segir að stundum sé vandinn það stór að það hjálpi okkur að setja hann í minna samhengi. „Staðreyndin er hins vegar sú að í Jemen búa 30,5 milljónir manna og 80 prósent þeirra þarf á neyðaraðstoð að halda. Þar af 12,2 milljónir barna, nærri fjögur af hverjum fimm börnum. Þá eru 1,7 milljón barna á vergangi innanlands. Og þetta eru bara tölurnar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa getað staðfest. Rauntölurnar frá átökunum í Jemen og þessari verstu mannúðarkrísu í veröldinni, eru án nokkurs vafa miklu mun hærri.“

Frá 26. mars 2015 til 31. ágúst 2020 hafa:

  • 3.218 börn verið myrt.
  • 5.884 börn særst.
  • 3.495 börn verið svipt sakleysi sínu og gert að taka upp vopn og berjast.
  • 462 árásir verið gerðar á skóla, eða þeir nýttir í hernaðarlegum tilgangi.
  • 170 árásir verið gerðar á heilbrigðisstofnanir eða þær nýttar í hernaðarlegum tilgangi.
  • Barnahjónabönd aukist. Tvær af hverjum þremur stúlkum undir 18 ára aldri voru giftar árið 2017.

UNICEF áætlar að tvær milljónir barna í Jemen glími við bráðavannæringu, þar af glími 325 þúsund börn undir fimm ára aldri við alvarlega bráðavannæringu. Auk þess er áætlað að 1,2 milljónir óléttra kvenna eða kvenna með barn á brjósti séu alvarlega vannærðar. Tólf milljónir Jemena, þar af tvær milljónir barna, reiða sig á mataraðstoð til að lifa af.

Tæplega 18 milljónir manna, þar af tæplega 9,6 milljónir barna, hafa ekki aðgang að hreinu og öruggu vatni né hreinlætisaðstoð. Raunar hefur aðeins þriðjungur Jemena aðgang að vatnsveitukerfi.

Ástandið er sem fyrr skelfilegt en UNICEF er sem fyrr í framlínunni við að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í landinu með stuðningi fólks eins og þín. Um árangurinn má lesa í frétt UNICEF á vef stofnunarinnar.

UNICEF á Íslandi hefur um árabil staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir þessum verkefnum og fyrir börn í Jemen sem nú þurfa á hjálp að halda sem aldrei fyrr. Hægt er að senda sms-ið JEMEN í númerið 1900 til að styðja neyðaraðgerðir UNICEF um 1.900 krónur.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×