Umfjöllun og viðtöl: Skalla­grímur - Valur 74-68 | Borg­nesingar skelltu Ís­lands­meisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Skallagrímur hefur fengið liðsstyrk.
Skallagrímur hefur fengið liðsstyrk. vísir/daníel

Skallagrímur er meistari meistaranna í körfubolta kvenna eftir sigur á Val í Meistarakeppni KKÍ í kvöld. Leikurinn fór fram í Fjósinu í Borgarnesi og endaði með 74-68 sigri heimakvenna.

Þetta var hörkuleikur frá upphafi og var nokkuð jafnt með liðunum framan af. Valskonur náðu yfirhöndinni snemma leiks og voru með forystu frá fyrstu mínútum. Þær náðu hins vegar ekki að hrista gulklæddar heimakonur af sér og var staðan 14-17 í lok fyrsta leikhluta.

Um miðbik annars leikhluta voru Valskonur nálægt því að ná að taka skrefið og slíta sig aðeins frá Sköllunum en heimakonur komu til baka af krafti í lokakafla fyrri hálfleiksins og endaði hann 31-32 fyrir Val.

Valskonur hefðu allt eins getað orðið eftir inni í búningsherbergi eftir hálfleikinn því Skallagrímur keyrði á þær af svo miklum krafti í byrjun seinni hálfleiks að gular voru búnar að setja 10 stig á töfluna á einni mínútu.

Rauðklæddir gestirnir sýndu samt styrk sinn í því að þær náðu að koma til baka og vinna sig aftur inn í leikinn. Skallagrímur fór hins vegar með fimm stiga forskot inn í lokaleikhlutann.

Borgnesingar náðu fljótlega í fjórða leikhluta að koma sér í um tíu stiga forystu og þær héldu henni allt fram á lokamínútuna þegar Valskonur gerðu áhlaup og reyndu að stela sigrinum. Heimakonur héldu það hins vegar út og fóru með 74-68 sigur og eru meistarar meistaranna.

Afhverju vann Skallagrímur?

Upphaf seinni hálfleiksins gerði útslagið. Þá komst Skallagrímur yfir og þótt Valskonur hafi náð að jafna og leikurinn var áfram jafn og spennandi þá var yfirhöndin hjá þeim gulu eftir það. Skallagrímskonur fóru að spila sem lið meira heldur en einstaklingar og þá fór að ganga betur og þær náðu inn sigrinum.

Hverjar stóðu upp úr?

Stigahæst í liði Skallagríms var Keira Robinson eins og svo oft áður með 21 stig og 5 stoðsendingar. Sanja Orozovic var ekki langt á eftir með 16 stig og 6 fráköst. Þá var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir öflug í að vinna fyrir liðið.

Hjá Val Guðbjörg Sverrisdóttir framlagshæst en Hildur Björg Kjartansdóttir skilaði flestum stigum á töfluna, 22.

Hvað gekk illa?

Varnarvinna Skallagríms gekk ekki alveg nógu vel. Oft á tíðum spiluðu Valskonur sig allt of auðveldlega í gegnum vörnina, en þegar hún small þá lokuðu þær mjög vel. Að sama skapi var skotnýtingin ekki mjög góð, en það er eðlilegt í fyrsta alvöru leiknum eftir sumarið.

Valur átti kafla í seinni hálfleik þar sem þeim gekk illa í sóknarleiknum og svo brutu þær mikið af sér í varnarleiknum.

Hvað gerist næst?

Domino's deild kvenna er handan við hornið og fer fyrsta umferðin fram á miðvikudaginn. Skallagrímskonur fara í Hafnarfjörðinn og sækja Hauka heim í sjónvarpsleik umferðarinnar en Valur fer í Smárann og mætir Breiðabliki.

Sigrún Sjöfn, fyrirliði Skallagríms, fagnar bikarmeistaratitlinum síðasta vor.Vísir/Daníel

Sigrún: Töluðum um að gera þetta sem lið

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, var að vonum ánægð með sigurinn í kvöld.

„Leikurinn var kaflaskiptur, við erum tiltölulega nýkomnar allar saman þannig að við erum mjög ryðgaðar, það var greinilegt í upphafi leiks að þær voru betur slípaðar saman en við,“ sagði Sigrún en Valskonur voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn í Fjósinu í kvöld.

„Svo töluðum við saman í hálfleik og þetta gekk betur, við fórum að spila betur sem lið.“

Það var greinilegt að það small eitthvað saman í hálfleiknum því Skallagrímskonur komu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og settu 10 stig á fyrstu mínútunni.

„Það small. Við vorum með aukasendinguna opna, það var svolítið um einstaklingsframtök og allir að reyna að sanna sig og sýna sig. Við töluðum saman um að hætta að líta í eigin barm og gera þetta sem lið.“

„Guðrún benti okkur á hvað væri opið og það small þarna fyrstu mínútuna. Svo duttum við aðeins niður aftur en það hafðist.“

Deildarkeppnin í Domino's deild kvenna hefst eftir aðeins þrjá daga og veitir sigurinn Sköllunum byr undir báða vængi.

„Þetta gefur okkur sjálfstraust í tímabilið sem fram undan er, en þetta gefur okkur ekki neitt í deildinni,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir.

Guðrún Ósk: Þegar við fengum flæði í sóknina kom þetta

Þjálfari Skallagríms, Guðrún Ósk Ámundadóttir, tók undir það að það mætti segja að Skallagrímskonur væru orðnar titilóðar eftir að hafa upplifað að vinna titil í fyrsta skipti í febrúar þegar þær urðu bikarmeistarar. Hún var samt ekki nógu ánægð með spilamennsku liðs síns.

„Við vorum ekki að spila nógu vel, ég veit að við getum miklu betur. En það kom kafli í þriðja leikhluta þar sem við tókum smá yfir og ég held það hafi gefið okkur forystuna,“ sagði Guðrún.

„Við vorum lélegar í vörn og mjög staðar í sókninni, um leið og við fengum smá flæði í sóknina þá kom þetta með okkur.“

Hvað fannst Guðrúnu sitt lið gera best í dag? „Við erum að slípa okkur saman, margar nýjar og við erum með nýtt lið. Sóknin hún kemur, ég veit það, en við hefðum getað spilað betri vörn. En liðsandinn og stemmningin, ég var ánægð með það.“

Ólafur Jónas: Besti leikurinn á undirbúningstímabilinu

„Það var fyrsta mínútan í þriðja leikhluta,“ var svar Ólafs Jónasar Sigurðssonar aðspurður hvað fór með leikinn fyrir Val. „Þær skora 11-0 á okkur, þrjú „and 1“ play sem var erfitt að ná aftur. Ég held að það sé snúningspunkturinn í leiknum.“

Ólafur átti ekki skýringu á afhverju Skallagrímur hefði náð svo frábærri mínútu í upphafi seinni hálfleiksins.

„Það bara kom eitthvað momentum með þeim, stundum gerist það í körfubolta. En þær eru með hörku lið og spiluðu vel hér í kvöld. Óska þeim innilega til hamingju.“

Hann var ánægður með spilamennsku síns liðs í kvöld. „Við gerðum nánast allt sem við lögðum upp með, nema náðum ekki í sigurinn. Gerðum fullt af jákvæðum hlutum og þetta var lang besti leikurinn á undirbúningstímabilinu hjá okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira