Viðskipti erlent

Ræða um að greiða milljarða til að láta FIFA-sakir hverfa

Kjartan Kjartansson skrifar
Merki Julius Bär í Zürich í Sviss. Einn fyrrverandi starfsmaður var sakfelldur fyrir aðild að FIFA-spillingarmálinu árið 2017.
Merki Julius Bär í Zürich í Sviss. Einn fyrrverandi starfsmaður var sakfelldur fyrir aðild að FIFA-spillingarmálinu árið 2017. Vísir/EPA

Svissneski bankinn Julius Bär gæti greitt bandarískum yfirvöldum jafnvirði milljarða íslenskra króna í sátt til að losna undan ásökunum um aðild að spillingarmáli Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Bankinn er sagður hafa hunsað hættu á peningaþvætti sem fólst í greiðslum tengdum FIFA.

Reuters-fréttastofan segir að viðræður bankans við bandaríska dómsmálaráðuneytisins um sátt séu langt komnar. Í yfirlýsingu Julius Bär segir að bankinn hafi unnið með rannsakendum meints peningaþvættis og spillingar starfsmanna FIFA, aðildarfélaga sambandsins og fjölmiðla- og markaðsfyrirtækja.

Upphæðin sem bankinn gæti þurft að greiða til að ná sátt í málinu er talin hlaupa á tugum milljóna dollara, jafnvirði milljarða íslenskra króna.

Svissneska fjármálaeftirlitið sakaði Julius Bär um að hunsa vísbendingar um peningaþvætti í greiðslum sem tengdust FIFA. Þá var fyrrverandi starfsmaður bankans sakfelldur í Bandaríkjunum fyrir samsæri um greiðslur frá forstjóra íþróttamarkaðsfyrirtækis til forseta argentínska knattspyrnusambandsins árið 2017.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið afhjúpaði stórfellda spillingu innan FIFA árið 2015. Hún fólst í mörgum tilfellum í mútugreiðslum fjölmiðla- og markaðsfyrirtækja til ráðamanna innan FIFA og landssambanda í kringum samninga um útsendingarétt á knattspyrnumótum. Fjöldi háttsettra FIFA-liða var handtekinn og leiddi málið að lokum til þess að Sepp Blatter, forseti sambandsins til fjölda ára, hrökklaðist frá völdum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×