Atvinnulíf

Sumir fagna fjarvinnu á meðan öðrum líður illa

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sóley Kristjánsdóttir – Gallup.
Sóley Kristjánsdóttir – Gallup. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

„Sumir taka tækifærinu til að vinna að heiman fagnandi og sjá strax kosti þess á meðan aðrir afkasta engu og líður bara hreinlega illa í slíkum aðstæðum“ segir Sóley Kristjánsdóttir viðskiptastjóri hjá Gallup um upplifun fólks í fjarvinnu. 

Í dag birtir Atvinnulífið fyrstu tölur frá Gallup um fjarvinnu fólks. Þær ná til tímabilsins apríl til júní en næstu mánuði verða nýjar tölur birtar á Vísi um miðjan hvern mánuð. Þannig verður hægt að fylgjast með því hvernig fjarvinna er að mælast hjá fólki, s.s. hvað varðar fyrirkomulag, líðan fólks eða hvernig vinnustöðum er að ganga að innleiða fjarvinnu sem hluta af nýjum veruleika.

Að sögn Sóleyjar skiptir viðhorf fólks til fjarvinnu þó miklu máli því eins og með alla hluti þá fylgja henni bæði kostir og gallar. Þar segir Sóley gott að rýna svolítið í það hvað fólk upplifir sem kosti eða sem galla því með því að vera meðvituð um þessi atriði sjálf, eigum við auðveldara með að leysa úr málum eða umbreyta göllum í kosti. Sem dæmi förum við yfir nokkra helstu kosti og galla fjarvinnunnar með Sóley.

Kostirnir

Einn kostur er til dæmis tímasparnaður vegna ferða í og úr vinnu. Að fara úr því að verja hálftíma á hverjum morgni í umferðar yfir í sjö sekúndna labb inn í vinnuherbergi verður að teljast sem mikill kostur.

Ef þetta er tilfellið þá er aldeilis um tímasparnað að ræða og má nota nýfengin tíma til dæmis í að byrja vinnudaginn fyrr og geta þá lokið honum fyrr, kúra lengur, borða morgunmat í ró með fjölskyldunni og/eða stilla sig inn í daginn á sínum tíma“ segir Sóley.

Annar kosturinn er meiri friður til að sinna verkefnum, meiri tækifæri til einbeitingar.

„Engir vinnufélagar að trufla með sögum eftir helgina eða þessi sem fattar ekki að heyrnatól á eyrunum þýðir "ekki trufla.“

Þá bendir Sóley á að fjarvinna gefi mörgum kost á að vinna verkefnin á þeim tíma dags sem hverjum og einum hentar best.

„Sumir komast í gírinn seinnipart dags eða jafnvel þegar tekur að kvölda. Þessar aðstæður eru virkilega góðar fyrir slíka einstaklinga og þeir geta þá sinnt öðrum verkefnum yfir daginn þegar hugurinn er annars staðar.

Enn aðrir kostir geta verið að hægt er að létta á heimilisverkunum yfir daginn. Þennan þátt segir Sóley ekki mega vanmeta því oft er það þannig að við fáum góðar hugmyndir þegar að við gerum eitthvað allt annað en að vinna.

„Að hlaupa niður í þvottahús og hengja upp úr einni vél er góð hreyfing og getur verið uppspretta margra góðra hugmynda“ segir Sóley.

Þá segir Sóley það geta verið góðar stundir fyrir pör ef makinn vinnur einnig heima.

„Þetta eru aðstæður sem geta annað hvort fært okkur nær maka okkar eða fjær, tækifæri eða áskorun sem getur verið vel þess virði að vinna með.“

Gallarnir

En auðvitað fylgja fjarvinnunni líka ýmsir gallar og margir þeirra geta falist í þeim sömu og hér hafa verið upptaldir sem kostir.

Heimilisstörf sem bíða og kröfur fjölskyldunnar geta haft truflandi áhrif á einbeitingu og störf okkar.

Það krefst sjálfsaga að sinna verkefnum vinnunnar inn á heimilinu ef maður er ekki vanur að gera það nú þegar.

Þá getum við einangrast þegar að við vinnum að heiman og meiri áskorun er að halda sér upplýstum,“ segir Sóley.

Hún bendir líka á að fyrir marga eru félagsleg samskipti á vinnustað mikill orkugjafi. Eins getur það hjálpað okkur að halda einbeitingu við verkefni að vera innan um samstarfsfólk sem keppist við að klára verkefni sín.

„Það getur líka verið gott aðhald að klára verkefni okkar að sjá vinnufélaga okkar sinna sínum verkefnum, heyra hver staðan er og vera hluti af teymi“ segir Sóley.

Loks bendir hún á að í fjarvinnu þurfum við oft að hafa meira fyrir því að sækja upplýsingar og því mikilvægt fyrir hvern vinnustað þar sem fólk er í fjarvinnu að ferli upplýsingamiðlunar sé á hreinu.

Sóley segir það hjálpa fólki í fjarvinnu að rýna í kosti og galla því þannig er oft auðveldara að breyta því sem fólk upplifir sem erfiðar áskoranir í fjarvinnu.Vísir/Vilhelm

Sumir upplifa meira eftirlit við fjarvinnu

Óljósar eða óraunhæfar kröfur vinnufélaga og stjórnenda geta haft neikvæð áhrif og viðkomandi sem vinnur að heiman getur upplifað að hann verði alltaf að vera við tölvuna til að sýna fram á að hann sé að sinna vinnunni. 

Þessar kröfur um viðveru eru óraunhæfar og sé ekki skilningur á þessu, getur vantraust komið upp“ segir Sóley.

Álag getur líka aukist í fjarvinnu þar sem alls kyns nýjar áskoranir verða til.

Ef makinn vinnur einnig heima þá geta bætast við að væntingar geta verið ólíkar um vinnutíma, hegðun, samskipti, hávaða, truflun og fleira.

Annar aðilinn vill kannski vinna að morgni til og eiga seinnipartinn saman, á meðan hinn vill geta sinnt heimilisverkum sem setið hafa á hakanum fyrri partinn og ætlar sér að vinna seinnipartinn“ segir Sóley og bætir við ,,Þá vandast málin ef börn eru heima og þarf að sinna þeim, en þarfir þeirra bíða lítið. Það getur verið mjög krefjandi áskorun að finna tíma til að geta sökkt sér í verkefni þegar börn eru annars vegar og krefst mikillar útsjónarsemi og þolinmæði, eins og barnauppeldi svo sem almennt.

„Annað hvort finnur þú afsökun eða leið“

Margir vinnustaðir gera hins vegar ráð fyrir því að um langan tíma verði starfsfólk í fjarvinnu að öllu leyti eða að hluta. Að sögn Sóleyjar skiptir því miklu máli að taka því sem höndum ber hverju sinni og vinna með það eins og hvert annað verkefni, í aðstæðum sem reyna hvað mest á, leynast oft tækifæri sem hefðu ekki annars sýnt sig.

„Hvernig við vinnum úr því sem við höfum, spilum úr spilunum sem okkur eru gefin, er undir okkur komið. Við getum þurft að hafa mismikið fyrir hlutunum en ef við virkilega viljum eitthvað þá finnum við leið“ segir Sóley og bætir við ,,Eins og sagt er, annað hvort finnurðu afsökun eða þú finnur leið.“

Sem dæmi, segir Sóley, að ef makar og börn eru heima á sama tíma og skipulagður er vinnutími, þá auki það mögulega álagið. Vænlegast er þá til árangurs að þau mál séu rædd heima fyrir og við vinnuveitanda þannig að þarfir fjölskyldunnar og vinnunnar geti farið saman.

„Ef þig vantar stuðning til að finna þinn takt í þessu öllu þá hvetjum við þig til að tala við samstarfsfólk þitt, yfirmann þinn eða fara til markþjálfa“ segir Sóley og bendir á að með því að tala við fólk sem er að glíma við sömu áskoranir og maður sjálfur er oft hægt að ráða fram úr alls kyns málum.

„Í vinnu með markþjálfa gefst tækifæri til að rýna heiðarlega í þær áskoranir sem maður stendur frammi fyrir, án þess að eiga á hættu á að vera dæmdur. Við erum öll með ólíkar þarfir og misjafnt hvernig við viljum láta mæta okkur. Það er því gott að hafa bakvið eyrað að eitt virkar ekki endilega fyrir alla og vænlegra er til árangurs að bæði skoða og bjóða upp á mismunandi leiðir til að styðja við bakið á fólki, bæði stjórnendum og starfsfólki. Þegar að við höfum að leiðarljósi að mæta fólki, þá að öllu jöfnu mætir fólk okkur líka“ segir Sóley.

Þá segir hún gott að starfsfólk segi frá því hvernig því líður í fjarvinnunni og að stjórnendur hlusti til að þeir geti betur tekist á við áskoranir sem fylgja aukinni fjarvinnu. Sem dæmi nefnir hún hvenær hægt er að ná í starfsmann sem er í fjarvinnu.

Það er eðlilegt að taka samtal við yfirmann um hvenær og hvernig samskiptin eiga að vera í fjarvinnu, gera samkomulag sem allir geta staðið við; er það í síma, tölvupósti, á Teams, eingöngu á hefðbundnum dagvinnutíma og svo framvegis“ 

segir Sóley sem hvetur fólk til að ræða við vinnuveitendur um líðan sína því um þessar mundir eru margir í fjarvinnu að glíma við sömu áskoranir eða vangaveltur.

„Kostir fjarvinnunnar falla auðvitað í skuggann ef ekki er unnið með þær áskoranirnar sem henni fylgja. Hugum að þeim áskorunum sem upp koma og leitum tækifæranna, styðjum við hvert annað og lærum saman að aðlagast breyttum tímum“ segir Sóley að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.