Viðskipti innlent

Óvissustigi vegna netárásar aflýst

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnti í dag að óvissustigi hefði verið aflýst.
Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnti í dag að óvissustigi hefði verið aflýst. Vísir/Vilhelm

Neyðarstjórn fjarskiptageirans ákvað á fundi sínum í morgun að aflétta óvissustigi vegna hættu á netárás, sem hótað hafði verið að yrði gerð. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þar segir að tvær minniháttar árásir hafi verið gerðar í gær, fimmtudag, en báðum afstýrt án vandkvæða. Hefðbundinni vöktun verði haldið áfram en ekki þyki ástæða til þess að hafa óvissustig virkt lengur.

Óvissustiginu var lýst yfir í fyrradag í fyrsta sinn hér á landi eftir að hótanir bárust um að alvarlegar tölvuárásir, svokallaðar R-DDoS- árásir, yrðu gerðar dagana á eftir greiði fyrirtæki ekki lausnargjald.

Fyrsta árásin af þessu tagi var gerð nýverið hér á landi en henni var fylgt eftir með fjárkúgunarpósti þar sem lausnargjalds var krafist. Ekki hefur fengist upplýst hvaða fyrirtæki varð fyrir árásinni.

Í R-DDos-árásum er netumferð beint inn á netlæga innviði fyrirtækis til að skerða afkastagetu. Það verður til þess að netbúnaður hefur ekki undan við að svara henni og þá rofnar þjónusta til notenda.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×