Körfubolti

Tryggvi skoraði 9 stig í öruggum sigri | Thelma Dís gerði 13

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggvi Snær í leik með íslenska landsliðinu.
Tryggvi Snær í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Bára

Tryggvi Snær Hlinason gerði níu stig í góðum 10 stiga sigri Zaragoza í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Þá skoraði Thelma Dís Ágústsdóttir 13 stig í bandaríska háskólakörfuboltanum er skóli hennar, Ball State, vann sinn 20. leik á tímabilinu.

Tryggvi Snær og félagar byrjuðu leik sinn ekki vel og voru tveimur stigum undir á heimavelli þegar 1. leikhluta var lokið. Þeir snéru taflinu heldur betur við í 2. leikhluta sem þeir unnu með níu stiga mun og staðan því 53-46 Zaragoza í vil er liðin gengu til búningsherbergja. Zaragoza hóf síðari hálfleikinn af sama krafti og vann á endanum 10 stiga sigur. Lokatölur 97-87. 

Ásamt því að skora níu stig þá tók Tryggvi fimm fráköst á þeim 17 mínútum sem hann spilaði. Zaragoza er eftir sigurinn í 3. sæti spænsku deildarinnar.

Ball State háskólinn, lið Thelmu, vann sinn 20. leik eftir nauman sigur gegn Central Michigan háskólanum. Þar spilaði frábær 1. leikhluti hvað stærstan þátt en Thelma og stöllur hennar unnu hann 16-6. Staðan í hálfleik var svo 32-25 Ball State í vil sem vann á endanum nauman fimm stiga sigur. 

Fyrir leikinn var Central Michican í 1. sæti MAC West deildarinnar og því um einkar góðan sigur að ræða hjá Ball State sem er enn í 2. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×