Viðskipti innlent

Icelandair sýnir spilin fyrir væntan­legt hluta­fjár­út­boð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Starfsmenn Icelandair vinna nú að því að styrkja rekstur félagsins til frambúðar.
Starfsmenn Icelandair vinna nú að því að styrkja rekstur félagsins til frambúðar. Vísir/Vilhelm

Icelandair birti í gærkvöldi kynningargögn fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins sem haldið verður 14. til 15. september næstkomandi, fáist samþykki hluthafafundar þann 9. september.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að hlutafjárútboðið sé lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins ásamt samkomulagi við íslensk stjórnvöld um ríkisábyrgð á lánalínu að fjárhæð allt að um 16,5 milljarða króna sem nú liggur fyrir. Ábyrgðin er háð samkomulagi aðila um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Kynningargögnin eru ítarleg, alls 101 blaðsíða, þar sem félagið kynnir meðal annars hvernig nýjir kjarasamningar við flugmenn, flugþjóna og flugvirkja gagnist félaginu, auk þess sem að farið er yfir rekstur félagsins á ítarlegan hátt.

Félagið virðist gera ráð fyrir því að Icelandair skili hagnaði aftur árið 2022 og að félagið nái sambærilegum hagnaði og árið 2015, þegar félagið hagnaðist um 134 milljónir dollara, árið 2022 þegar gert er ráð fyrir 175 milljóna dollara hagnaði. Félagið tiltekur þó að það hafi sveigjanleika til að bregðast hraðar við, verði eftirspurn sneggri að taka við sér en reiknað er með.

Úr kynningu IcelandairMynd/Icelandair

Í tilkynningu Icelandair segir að félagið sé nú í sterkari stöðu en búist var við eftir hluthafafund félagsins þann 22. maí. Félagið hafi, þrátt fyrir faraldurinn, haldið uppi takmarkaðri en arðbærri flugáætlun í sumar og gripið mikilvæg tækifæri í fraktflutningum og leiguflugi.

„Viðskiptamódel Icelandair Group hefur margsannað sig og við förum bjartsýn inn í það hlutafjárútboð sem nú er framundan. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á félagið á liðnum mánuðum líkt og öll önnur flugfélög í heiminum. Fjárhagsstaða félagsins var góð áður en faraldurinn skall á og í kjölfar þeirra aðgerða sem við höfum gripið til og þeirra áætlana sem við höfum gert til framtíðar, hefur félagið alla burði til að koma sterkt út úr honum,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group.

Kynningargögn Icelandair má nálgast hér.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×