Atvinnulíf

Stelst til að púsla fram eftir og velur ráðherrastarf ekkert fram yfir netagerð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að það starf sem hún starfar í hverju sinni sé skemmtilegast. Hún stelst stundum til að púsla fram eftir á kvöldin en á daginn eru viðfangsefnin afar fjölbreytt. Allt frá verkefnum tengdum kórónaveirunni, vörnum gegn peningaþvætti og nýrri vefsíðu.
Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að það starf sem hún starfar í hverju sinni sé skemmtilegast. Hún stelst stundum til að púsla fram eftir á kvöldin en á daginn eru viðfangsefnin afar fjölbreytt. Allt frá verkefnum tengdum kórónaveirunni, vörnum gegn peningaþvætti og nýrri vefsíðu. Vísir/Vilhelm

Við þekkjum hana sem fyrrverandi ráðherra og þingmann en hún hefur þó unnið margvísleg störf önnur og getur ekki gert upp á milli hvaða starf er skemmtilegast. Nætursímsvörun á pizzastað, framkvæmdastjórastarfið, afgreiðslustörf, ráðherrastarfið, netagerð eða að vinna í fiski. Allt eru þetta störf sem henni finnst skemmtilegasta starfið hverju sinni.

Já í kaffispjalli helgarinnar er það Katrín Júlíusdóttir sem situr fyrir svörum. Henni hefur alltaf fundist vinnan sín skemmtileg því af öllum störfum megi læra svo margt.

Katrín starfar í dag sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. Í kaffispjallinu um helgar spyrjum við alltaf hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og síðan um það hvenær fólk fer að sofa á kvöldin. Við spyrjum líka um skipulagið og vinnuna.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna oftast á bilinu 6.45 til 7.15.  

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Mér finnst gott að liggja upp í rúmi í svolitla stund áður en ég fer á fætur og hlusta á börnin vakna en maðurinn minn sér yfirleitt um að ræsa mannskapinn.

Svo koma sjö ára synir mínir oftar en ekki til mín í morgunknús og spjall áður en ég ríf mig á lappir og hendi mér beint í sturtu.

Morgunsturtan er ómissandi og hefur verið í mínu lífi frá því að ég var um tíu ára gömul.

Dagurinn verður bara ekki eins góður og afkastamikill ef engin er morgunsturtan.“

Gleðibatterín mega ekki tæmast

En hvað ætli þingmaður og ráðherra segi um skemmtilegasta starfið? Við prófum að hafa spurninguna opna og sjá hvort ráðherrastarfið yrði það starf sem Katrín myndi helst nefna.

Því var öðru nær enda segir Katrín hægt að læra svo margt um samfélagið með því að starfa í ólíkum hlutverkum og verkefnum. Það hjálpi líka til við að byggja upp sjálfstraustið.

Hvað er skemmtilegasta starfið sem þú hefur verið í?

„Starfið sem ég er í hverju sinni finnst mér skemmtilegast, hef unnið fjölbreytt störf og er óhrædd við að skipta um vettvang ef mér finnast áskoranirnar of litlar og gleðibatteríin farin að tæmast.

Hef unnið við afgreiðslustörf, innkaup fyrir barnafataverslanir, verið verkefnastjóri í tölvubransanum, svarað nætursíma á pizzastað, verið framkvæmdastjóri þrisvar, þingkona og ráðherra ásamt því að hafa unnið í netagerð og fiski.

Þá finnst mér gaman að stökkva inn í stutt verkefni og hjálpa vinum og kunningjum ef á þarf að halda og hef tekið að mér að túlka, leiðbeina ferðamönnum úr skemmtiferðaskipum og afgreiða á veitingastað yfir helgi samhliða öðrum störfum á undanförnum árum.

Fannst þetta allt gaman vegna lærdómsins sem felst í hverju starfi, því ég hef trú á því að fjölbreytt reynsla geti gefið þér ákveðið sjálfsöryggi til mæta óvæntum aðstæðum ásamt því að gefa innsýn inn í ólíka anga samfélagsins.

Því það er ekki bara námið þitt sem gefur þér verkfærin til að sinna störfum þínum vel, það er líka viðhorfið og samansafn fyrri reynslu.“

Kórónaveiran, varnir gegn peningaþvætti, nýr vefur og... erfið púsl!

Það finna eflaust margir samhljóm við þá lýsingu Katrínar að enginn vinnudagur sé eins og oft þróist dagurinn ekkert endilega eins og til stóð. Í skipulagi er verið að skoða TEAMS en Katrín viðurkennir að stundum sendir hún sjálfum sér tölvupóst með To do lista á kvöldin. Síðan sofnar hún værum svefni.

Í hvaða verkefnum ertu helst að vinna í þessa dagana?

„Starfið mitt hjá Samtökum fjármálafyrirtækja er gríðarlega fjölbreytt. Enginn dagur er eins og dagurinn þróast alveg örugglega ekki eins og þú taldir þegar hann hófst.

En ef ég gef bara innsýn með dæmum þá hafa helstu verkefni í liðinni viku verið að undirbúa mig með gagnaöflun undir fund í starfshópi sem ég sit í vegna vinnu við nýja löggjöf, vinna að gerð viðbragðsáætlunar vegna nýju kórónaveirunnar því samtökin hafa ákveðnu hlutverki að gegna þegar landsáætlun Ríkislögreglustjóra er virkjuð, þá sit ég í vinnuhópi evrópsku bankasamtakanna um varnir gegn peningaþvætti og hef verið að vinna verkefni því tengt.

Ég gæti svo haldið endalaust áfram, skrifaði einnig nokkur bréf og drög að umsögn og ekki má ég gleyma stefnumótunarvinnu með hópnum mínum um vinnulag og innri ferla hjá okkur en við erum að straumlínulaga starfsemina með nýjum verkfærum og að fara að opna nýjan upplýsingavef með breyttum áherslum nú á vordögum.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Hingað til hef ég verið að nota Outlook Calendar og Taskið mest, svo erum við í hópi þeirra sem erum að taka Microsoft Teams inn í okkar starfsemi sem mun bara bæta skipulagið.

Ég er líka með töflu á skrifstofunni þar sem ég skrifa hugmyndir eða verkefni sem ég þarf að koma í feril áður en ég gleymi því.

Ég þarf að skrifa allt strax niður annars er alls óvíst hvenær og ef ég man þetta aftur.

Stundum sendi ég sjálfri mér tölvupóst með todo lista eða pælingum rétt áður en ég fer að sofa, hvort sem er um vinnu- eða fjölskyldutengd atriði.

Þá sofnar kona vært.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Mér finnst gott að skríða uppí um klukkan níu en þá les ég gjarnan fréttir, horfi á upptökur af allskyns fréttaþáttum, púsla í Ipadnum.

Svo slökkvum við ljósin kannski á bilinu hálftíu til ellefu. 

Svo gerist það alveg að ég sofni fyrir níu eða eftir miðnætti sérstaklega ef ég dett niður á stórt og erfitt púsl, þá þarf ég stundum að gera bara eiiiit í viðbót og svo bara aaaaðeins að klára smá...

Þið þekkið þetta,“ segir Katrín að lokum og hlær.


Tengdar fréttir

Gísli Örn á fullu í verbúðum og byrjaður í kaffinu á morgnana

Gísli Örn Garðarson vaknar klukkan 7.20 á virkum morgnum og byrjar þá á því að semja við börnin sín um ,,10 mínútur“ í viðbót. Hann fór nýverið að drekka kaffi á morgnana og viðurkennir að hann er alltof gjarn á að kíkja á síman sinn þegar hann er nývaknaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×