Körfubolti

Valur Orri í metabækur Florida Tech | Thelma átti stórleik

Sindri Sverrisson skrifar
Valur Orri Valsson í búningi Florida Tech.
Valur Orri Valsson í búningi Florida Tech. mynd/Florida tech

Valur Orri Valsson átti ríkan þátt í mikilvægum sigri Florida Tech á Embry-Riddle, 77-70, í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Valur Orri skráði sig í sögubækur skólans en hann átti tíu stoðsendingar og hefur þar með átt 429 stoðsendingar á háskólaferlinum, fleiri en nokkur annar sem numið hefur við skólann. Það sem gerir afrek Vals enn merkilegra er að hann hefur náð áfanganum á innan við þremur leiktíðum.

„Ég er afar stoltur af Val Valssyni að vera búinn að festa nafn sitt að eilífu í metabækur Florida Tech. Það er magnað að hugsa til þess hvernig hann hefur náð þessu meti. Hann þurfti að sitja hjá fyrsta árið sitt hérna áður en hann var löglegur með okkur, og síðan missti hann ár og hafði bara þrjú ár eftir til að vera í liðinu. Það er gjörsamlega ótrúlegt að ná svona mörgum stoðsendingum á þremur leiktíðum,“ sagði Billy Mims, þjálfari Florida Tech, og bætti við að Valur væri með ótrúlegt auga fyrir spili.

Valur skoraði einnig níu stig, tók sjö fráköst og stal boltanum þrisvar sinnum í leiknum í nótt. Florida Tech hefur nú unnið 11 leiki af 14 á heimavelli.

Guðlaug Júlíusdóttir og stöllur hennar í kvennaliði Florida Tech fögnuðu einnig sigri á Embry-Riddle, 80-74. Guðlaug var meðal stigahæstu leikmanna með 16 stig en hún tók einnig 4 fráköst og átti 2 stoðsendingar.

Thelma átti sinn besta dag
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 26 stig í nótt.mynd/Ball State

Thelma Dís Ágústsdóttir fór á kostum fyrir Ball State í 69-58 sigri á Buffalo. Hún skoraði heil 26 stig sem er met hjá Thelmu í háskólakörfuboltanum. Thelma hitti meðal annars úr 6 af 7 þriggja stiga skotum sínum í leiknum en auk stiganna þá tók hún sjö fráköst og átti eina stoðsendingu. Þar með hefur Ball State unnið 17 af 24 leikjum sínum á leiktíðinni.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoraði 8 stig, tók 3 fráköst og átti 2 stoðsendingar þegar Nebraska tapaði fyrir Wisconsin, 81-64. Wisconsin náði 21-5 kafla í seinni hálfleik sem gerði út um leikinn, en liðið var 39-38 yfir í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×