Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnaðist um 18,2 milljarða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lagt verður til við aðalfund bankans að greiddur verði út 9,5 milljarða króna arður til hluthafa bankans, íslenska ríkisins, vegna síðasta árs.
Lagt verður til við aðalfund bankans að greiddur verði út 9,5 milljarða króna arður til hluthafa bankans, íslenska ríkisins, vegna síðasta árs. vísir/hanna

Landsbankinn hagnaðist um 18,2 milljarða króna á síðasta ári, eftir skatta.

Lagt verður til við aðalfund bankans að greiddur verði út 9,5 milljarða króna arður til hluthafa bankans, íslenska ríkisins, vegna síðasta árs en arðurinn nemur 0,40 krónu á hlut.

Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir síðasta ár sem kynnt var í dag.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að arðsemi eiginfjár Landsbankans hafi verið 7,5% á árinu 2019, samanborið við 8,2% arðsemi árið 2018.

Arðsemi eiginfjár án bankaskatts var 9,2% en markmið bankans er að ná að lágmarki 10% arðsemi eiginfjár, að teknu tilliti til áhrifa bankaskatts.

Eigið fé Landsbankans nam 247,7 milljörðum króna í árslok 2019 og var eiginfjárhlutfallið 25,8% af áhættugrunni.

Þá jukust útlán bankans um 76 milljarða króna á síðasta ári. Hreinar vaxtatekjur námu 39,7 milljörðum króna samanborið við 40,8 milljarða króna árið 2018.

„Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 8,2 milljörðum króna árið 2019 og standa í stað á milli ára. Aðrar rekstrartekjur námu 8,5 milljörðum króna á árinu 2019 samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2018 sem er hækkun um 136% á milli ára. Hækkunin skýrist aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa.

Neikvæð virðisbreyting útlána og krafna nam 4,8 milljörðum króna samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 1,4 milljarð króna árið 2018. Vanskilahlutfall útlána stendur í stað á milli ára en það var 0,8% í lok árs 2019 og 2018,“ segir í tilkynningu Landsbankans til Kauphallar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×