Atvinnulíf

Atvinnulíf hefur göngu sína á Vísi

Tinni Sveinsson skrifar

Í dag hefur göngu sína flokkurinn Atvinnulíf á Vísi. Umsjónarmaður Atvinnulífs er Rakel Sveinsdóttir. Atvinnulíf fjallar á fjölbreyttan hátt um stjórnun, mannauðsmál, fyrirtækjamenningu, strauma og stefnur í atvinnulífi, jafnvægi heimilis og vinnu, líðan starfsmanna og fleira sem fólk kljáist við á vinnustöðum og í sínu daglega lífi. 

Fyrirmyndina að efnistökunum má til dæmis sjá hjá erlendum miðlum á borð við BBC Worklife, sem hafa í síauknum mæli fjallað um atvinnulíf í víðu samhengi síðustu ár.

Á miðvikudögum verður eitt málefni tekið fyrir sérstaklega og kafað dýpra í það. Í dag eru það Erfið starfsmannamál. Rætt er við Eyþór Eðvarðsson hjá Þekkingarmiðlun sem útskýrir meðal annars fjórar þekktar staðalmyndir af „erfiðum“ einstaklingum; nöldrara, leyniskyttur, vitringa og einræðisherra.

Þá segir Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi, að enn sé nokkuð um það að fólk sé að ekki að segja frá erfiðum málum í vinnunni. Það eigi ekki bara við um metoo-mál.

Inga Björg Hjaltadóttir, lögmaður og framkvæmdastjóri Attendus, segir frá því að yfirmenn eru oftast gerendur í eineltismálum á vinnustað.

Umsjónarmaður Atvinnulífsins á Vísi, Rakel Sveinsdóttir, hefur fjölþætta reynslu úr íslensku atvinnulífi. Hún var framkvæmdastjóri Creditinfo um árabil, formaður Félags kvenna í atvinnulífi, sat í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og fleira. Á miðvikudögum verður hún einnig gestur Bítisins á Bylgjunni og ræðir þar þau mál sem eru efst á baugi. Hægt er að hlusta á viðtalið síðan í morgun hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Ekki aðeins #metoo mál sem starfsfólk þegir yfir

Erfið starfsmannamál: Í samtali við Gyðu Kristjánsdóttur, ráðgjafa hjá Hagvangi, kemur í ljós að enn er nokkuð um að fólk er ekki að segja frá erfiðum málum á vinnustað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×