Fótbolti

Ragnar með til­boð frá Skandinavíu og Tyrk­landi: Til í að prófa Asíu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar í landsleik gegn Sviss á síðasta ári.
Ragnar í landsleik gegn Sviss á síðasta ári. vísir/epa

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson er með tilboð frá bæði Skandinavíu og Tyrklandi en miðvörðurinn knái er án liðs eftir að hafa fengið sig lausan frá Rostov á dögunum.

Ragnar hafði verið í herbúðum Rostov frá árinu 2018 en áður hafði hann meðal annars leikið með FCK, Krasnodar og Fulham.

Miðvörðurinn öflugi var í viðtali hjá Bjarna Helgasyni í helgarblaði Morgunblaðsins þar sem hann fór yfir næstu skref.

„Ég er búinn að vera í fríi núna sem hefur verið bæði gott fyrir mig og líka nauðsynlegt. Það er mikil-vægt að hlaða batteríin öðru hverju og það er alltaf gott að koma heim til Íslands,“ sagði Ragnar.

„Að sama skapi er alltaf óþægilegt þegar framtíðin er í smá óvissu en janúarglugginn verður opinn út mánuðinn og ég hef þess vegna ágætis tíma til þess að ákveða næstu skref á ferlinum.“

Ragnar hefur komið víða við á ferlinum en hann segir að hann sé ekki búinn að ákveða næstu skref eða í hvaða landi hann verður.

„Ég er alveg til í að prófa nýja hluti og spila í Asíu sem dæmi. Eins set ég það ekki fyrir mig að vera áfram í Rússlandi og þá leið mér alltaf mjög vel í Skandinavíu þegar ég spilaði þar þannig að það má alveg segja sem svo að ég sé í raun opinn fyrir nánast öllu.“

FCK hefur verið nefnt til sögunnar en Ragnar lék þar við góðan orðstír frá 2011 til 2014. Hann er í guðatölu hjá mörgum stuðningsmönnum liðsins og Ragnar útilokar það ekki.







„Mér leið mjög vel í Kaupmannahöfn og það er ein af mínum uppáhaldsborgum í dag. Eins og ég sagði áðan er ég opinn fyrir flestu og ég er með nokkur tilboð í höndunum, meðal annars frá Skandinavíu og Tyrklandi.“

Ragnar bætti við að lokum að hann ætli ekki að flýta sér að taka ákvörðun um næsta áfangastað og að hann muni bíða eftir rétta tilboðinu.


Tengdar fréttir

Ragnar yfirgefur Rostov

Ragnar Sigurðsson er laus allra mála frá rússneska félaginu Rostov. Hann komst að samkomulagi við félagið um að rifta samningi sínum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×