Handbolti

Elvar Örn gat loksins æft af fullum krafti

Henry Birgrir Gunnarsson í Malmö skrifar
Elvar Örn fyrir æfingu í dag.
Elvar Örn fyrir æfingu í dag.

Miðjumaðurinn Elvar Örn Jónsson tók þátt af fullum krafti á æfingu íslenska liðsins í Malmö í dag en það var í fyrsta sinn síðan hann meiddist gegn Þjóðverjum sem hann gat beitt sér af fullum krafti.

„Staðan er mjög góð og ég er að fara á mínu fyrstu æfingu þar sem ég fer í allar snertingar. Þetta lítur allt vel út,“ sagði Selfyssingurinn kátur en hann snéri sig á ökkla í leiknum gegn Þjóðverjum.

„Mér líður vel og er búinn að prófa síðustu tvær æfingar án snertinga og ekkert bakslag.“

Pabbi Elvars, Jón Birgir Guðmundsson, er sjúkraþjálfari landsliðsins og hefur verið með soninn í stífri meðferð síðustu daga.

„Þetta er búin að vera meðferð allan sólarhringinn til að koma þessu í lag. Ég var aðeins hræddur fyrst er þetta gerðist en ég fann eftir leik að þetta var ekki eins alvarlegt og ég hélt fyrst,“ segir Elvar Örn en hann er skiljanlega orðinn spenntur fyrir mótinu.

„Það var kominn fiðringur fyrir nokkru síðan en nú magnast þetta allt saman upp.“

Klippa: Elvar Örn orðinn heill heilsu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×