Körfubolti

NBA-stjarna minnist fyrrverandi leikmanns Keflavíkur: „Hann var átrúnaðargoðið mitt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeMarcus Cousins lék með Golden State Warriors í úrslitum NBA-deildarinnar á síðasta tímabili. Cousins og félagar töpuðu þá, 4-2, fyrir Toronto Raptors.
DeMarcus Cousins lék með Golden State Warriors í úrslitum NBA-deildarinnar á síðasta tímabili. Cousins og félagar töpuðu þá, 4-2, fyrir Toronto Raptors. getty/Steve Russell

Körfuboltastjarnan DeMarcus Cousins minnist Stanley Robinson, fyrrverandi leikmanns Keflavíkur, á Instagram-síðu sinni.

Robinson lést á heimili sínu í Birmingham í Alabama á þriðjudaginn. Hann var nýorðinn 32 ára. Ekki er talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Líkt og Robinson er Cousins frá Alabama og hann segist vera í áfalli eftir að hafa frétt af dauða hetjunnar sinnar.

„Þessar fréttir eru mér þungbærar og ég vil ekki trúa því að þetta sé satt,“ skrifaði Cousins á Instagram.

„Goðsögnin Sticks [gælunafn Robinsons] var átrúnaðargoðið mitt. Ég vildi vera eins og þú, allt frá því hversu vel þú fórst með boltann þrátt fyrir stærð og hvernig þú skaust. Komandi frá austurhluta Birmingham átti maður ekki margar hetjur en þú varst klárlega ein slík fyrir mér. Þú hjálpaðir mér að trúa að ég gæti náð langt.“

Robinson lék með Connecticut í háskólaboltanum og Cousins með Kentucky. Lið þeirra mættust tímabilið 2009-10. Villikettirnir frá Kentucky unnu þá þriggja stiga sigur, 64-61. Robinson og Cousins skoruðu báðir tíu stig í leiknum. Sá fyrrnefndi tók níu fráköst og sá síðarnefndi tíu.

Sacramento Kings valdi Cousins með fimmta valrétti í nýliðavali NBA-deildarinnar 2010. Hann lék með Sacramento í sjö ár, fór svo til New Orleans Pelicans og þaðan til Golden State Warriors. Hann lék með síðastnefnda liðinu úrslitum NBA í fyrra. 

Cousins samdi við Los Angeles Lakers síðasta sumar en sleit hásin fljótlega eftir það og samningi hans við félagið var svo rift í febrúar.

Cousins hefur fjórum sinnum spilað í Stjörnuleik NBA og tvisvar sinnum verið í öðru úrvalsliði deildarinnar. Þá varð hann heimsmeistari með bandaríska landsliðinu 2014 og Ólympíumeistari tveimur árum síðar.

Orlando Magic valdi Robinson í nýliðavalinu 2010 en hann lék aldrei með liðinu. Robinson kom víða við á ferlinum, m.a. á Íslandi. Hann lék nokkra leiki með Keflavík tímabilið 2017-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×