Viðskipti innlent

Atvinnuleysið úr 9,9 prósentum í 3,5 prósent milli mánaða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikið hefur mætt á starfsmönnum Vinnumálastofnunar í ár.
Mikið hefur mætt á starfsmönnum Vinnumálastofnunar í ár. Vísir/vilhelm

Atvinnuleysið í nýliðnum júnímánuði var svipað og það var í sama mánuði í fyrra, ef marka má mælingar Hagstofunnar. Þær bera með sér að atvinnuleysið hafi verið 3,5 prósent í júní í ár, en það var 3,2 prósent í júní í fyrra.

Þetta verður að teljast nokkur viðsnúningur því atvinnuleysið í maí á þessu ári mældist 9,9 prósent. Áætlað er að 217.200 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í júní í ár. Það jafngildir 83,1 prósent atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 209.500 hafi verið starfandi en 7.700 án vinnu og í atvinnuleit. 

Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,2 prósent og hlutfall atvinnulausra 3,5 prósent í júní á þessu ári sem fyrr segir.

hagstofa íslands

Árstíðarleiðréttar tölur Hagstofunnar benda þó til þess að 8300 manns, eða 4,1 prósent af vinnuaflinu, hafi verið atvinnulaus í síðasta mánuði.

„Rétt er að benda á að árstíðarleiðréttar tölur geta verið ónákvæmar við óvenjulegar aðstæður líkt og nú eru á vinnumarkaði. Árstíðarleiðréttar tölur gera ráð fyrir almennum árstíðarbundnum sveiflum á vinnumarkaði, til dæmis auknum fjölda atvinnulausra að vori þegar námsmenn hefja leit að sumarvinnu, en slíkar leiðréttingar duga skammt þegar óvæntir og einstakir atburðir hafa áhrif á atvinnustöðu fólks. Því er mikilvægt að horfa frekar til óleiðréttra mælinga við mat á skammtímaáhrifum.“

Hagstofan tekur jafnframt fram að mikilvægt sé að hafa í huga að um sé að ræða bráðabirgðatölur, sem verði endurskoðaðar við lok ársfjórðungsins. „Vísbendingar eru um brottfallsskekkju í niðurstöðunum sem lýsa sér í því að einstaklingar sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur í júní voru ólíklegri til að svara spurningalista rannsóknarinnar heldur en þeir sem ekki fengu greiddar þess háttar bætur. Þetta kann að leiða til vanmats á atvinnuleysi fyrir júnímánuð.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×