Skoðun

Eru vespur náttúru­lög­mál?

Guðmundur Karl Einarsson skrifar

„Pabbi, ég þori ekki að hjóla úti“ sagði þriggja ára dóttir mín einn góðviðrisdaginn. Hún var lítil í sér og vildi helst halda fyrir eyrun. Þegar ég spurði hana við hvað hún væri hrædd var svarið einfalt: mótorhjól.

Við búum Kórahverfi. Hverfið er barnvænt enda göngustígar og leikvellir innan seilingar fjarri umferðargötum. En unglingar á vespum eru því miður orðnir vandamál hér sem víðar. Hávær vélknúin ökutækin þjóta um göngustígana, oft á ofsahraða, með tilheyrandi hættu fyrir gangandi vegfarendur að ekki séð talað um hljóðmengunina sem fylgir. Á vespunum sitja unglingar sem njóta frelsisins sem fylgir þessum tækjum. Mikið skil ég þau. Ég er alveg viss um að ég hefði verið friðlaus að eignast svona farartæki hefði það verið í boði á tíunda áratugnum.

Umræddar vespur kallast létt bifhjól í flokki 1 og mega ekki aka hraðar en 25 km/klst. Vandinn er hins vegar að margir hafa breytt hjólunum svo þau komast mun hraðar en aka engu að síður á sama göngustíg og þriggja ára dóttir mín notar. Þá er vinsælt að koma saman á kvöldin á hjólunum og þá eru flauturnar óspart notaðar. Aftur er þriggja ára dóttir mín fórnarlambið og vaknar með andfælum.

Ég skora á Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofu að taka málefni léttra bifhjóla í flokki 1 til gagngerrar endurskoðunar. Ekki bíða eftir að það verði alvarlegt slys heldur bregðumst strax við. Hver vill hafa ástandið svona? Vespur eru nefnilega ekki náttúrulögmál.

Höfundur er foreldri og flugumferðarstjóri.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×