Viðskipti innlent

Lárus skipaður stjórnar­for­maður Mennta­sjóðs náms­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Lárus Sigurður Lárusson.
Lárus Sigurður Lárusson. Aðsend

Lárus Sigurður Lárusson lögmaður hefur verið skipaður stjórnarformaður nýs Menntasjóðs námsmanna. Sjóðurinn kemur í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Frumvarp menntamálaráðherra um sjóðinn var samþykkt á Alþingi í vor, en það felur í sér umtalsverðar breytingar á lánum til námsmanna sem að hluta til geta orðið styrkir og ábyrgðamannakerfið verður að mestu lagt niður. Með nýjum lögum geta þeir sem taka lán hjá Menntasjóði fengið 30 prósent af lánum sínum breytt í styrk, ljúki þeir námi innan tilgreindra tímamarka.

Í tilkynningunni kemur fram að Lárus starfi hjá lögmannsstofunni Sævar Þór & Partners. 

„Lárus starfaði áður sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu í rúm fimm ár áður en hann fór að leggja stund á lögmennsku. Þar áður var hann lögfræðingur hjá Persónuvernd.

Lárus starfaði sem lögfræðingur hjá ríkinu í meira en áratug og hefur því mikla reynslu og þekkingu á stjórnsýslurétti fyrir utan þau réttarsvið sem hann starfaði á, samkeppnisrétti og persónuupplýsingarétti. Hann sat í stjórn LÍN og var varaformaður stjórnar. Hann situr einnig í stjórn um heiðurslaun listamanna og er varamaður í stjórn listamannlauna.“

Lár­us Sig­­urður leiddi lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í síðustu Alþingiskosningum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×